Sunday, June 27, 2010

Nú er sumar gelðjumst gumar, gaman er í dag




Ég var spurð að því áðan hvort þetta blogg okkar systra væri að deyja hægum dauðdaga. Nei það vil ég ekki viðurkenna og gríp því til minna ráða og reyni að blása í það líf.


Já eins og titill þessa bloggs gefur til kynna þá er sumargleðin mér ofarlega í huga núna. Það er ekki ofsögum sagt að sumarið sé yndislegur tími, meira að segja hér á Íslandi. Þó að oft blási kalsa vindur og veður vott þá ferð það samt ekki á milli mála að það er sumar. Það er aldrei nótt og eftir rigninguna fyllist loftið sumarangan. Svo þegar sólin nær að brjótast í gegnum skýin og yljar okkur á tánum þá verða allir svo glaðir og góð grilllyktin fyllir loftin. Ég held að það séu ekki margar þjóðir sem kunna jafn vel að meta gott veður og við Íslendingar. Fólk sem býr í löndum þar sem veður er að jafnaði mun betra en hér nýtur góða veðursins ekki eins og við heldur tekur því sem sjálfsögðum hlut og fer í fýlu þegar veðrið er ekki gott. Það held ég nú ;) En ég var akkúrat að spá í það um daginn hvað geti talist gott veður. Er það til dæmis gott veður þegar hitinn er svo óbærilegur að maður getur vart farið út úr húsi án þess að líta út eins og rolla í sahara eyðimörkinni. Mér finnst það líka vera gott veður þegar það rignir ef það er ekki þeimun kaldara og hvassara, þó held ég að rigning tilheyri ekki hinni hefðbundnu skilgreiningu á góðu veðri. Ég man líka einu sinni að við Helga E vinkona mín vorum að þræta (aldrei þessu vant) um hvort veðrið væri gott þegar það var nístingskuldi en alvega logn. Mér þótti þetta hið best veður en HE var ekki alveg á sama meiði. En nóg um veðrið þó ég þreytist seint á að tala um það.

Eins og ég kom inn á í síðasta bloggi þá skellti ég mér til Danmerkur um síðustu helgi að heimsækja Sibbu sys og Andra. Mikið var það nú gaman :D Við hjóluðum út um allar trissur, fróum í Tívolíið, borðuðum fullt af góðum mat og drukkum mikið kaffi, grilluðum í parken, fórum á loppemarkede, spiluðum yatzy út í eitt, hlógum mikið og töluðum. Gerist ekki skemmtilegar. Eins og hversdagsleikinn er nú yfir höfuð ágætur þá getru tilhugsunin um hann orðið voðalega yfriþyrmandi og hann virst. Það var frekar erfitt að koma heim á mánudagsmorgni og fara í vinnuna eftir 4 frábæra daga þó ég viti vel að svona sé lífið bara í fríum. En það er nú skemmtileg dagskrá framundan. Stína kom til lansins í gær og verður í 10 daga og svo kemur sibba heim um miðjan júlí og verður alveg þangað til hún byrjar í skólanum :D



Nokkrar myndir úr DK

















Við Guðrún Eik skelltum okkur á Sex and the city 2 á föstudaginn. Mér þykir þættirnir alveg ótrúlega skemmtilegir og fyrri myndin alveg frábær. En ég hafði þó heyrt að seinni mydnin stæði þeirri fyrr langt að baki og væri lítið annað en tveggja tíma tískusýning. Ég fór því með temmilega miklar væntingar. En ég verð að segja að mér fannst myndin alveg stórsemmtileg. Fannst hún byrja kannski full rólega og stundum hafi glamúrinn vera fram úr hófi en hún vann bara á og mér fannst voða leiðinlegt þegar hún var búin. Gæti bara vel hugsað mér að fara aftur. Það er ekki leiðinlegt að gleyma því í 2 tíma maður er blankur námsmaður á Íslandi og láta sig dreyma um að vera ein af ofurskutlunum, photoshoppuð í drasl á búðarápi í NY ;)







Já já...en ætli ég verði ekki að binda enda á þetta hér og nú. Helgarhreingerningin hefur dregist nokkuð á langin hjá mér, komið sunnudagssíðdegi og enn er hún á stig "rusla til áður en tekið til". Ég byrjaði daginn reyndar af kraft þar sem ég skúraði eldhúsgólfið fyrir klukkan 9 í morgun. Það var reyndar út af því að það hafði hellst niður epla cider deginum áður og þegar ég ætlaði að fá mér morgunmat í morgun, komst ég ekki fet þar sem ég var föst við gólfið. Kannki ég fari bara að gera þetta þegar það er löngu kominn tími til að skúra gólfið en samt ekki svo að ekki sé hægt að horfa fram hjá því að hella dágóðum dass af einvherju nógu klístruðu á gólfið sov það verði ekki hjá því komist að skúra.




Helg litla biður alveg ábyggilega að heilsa. Hún stendur í ströngu þessa studnina í Ísrael að keppa á evrpópubikar í þraut. Búið að ganga svona upp og ofan en hún bætti sig um tvo metra í spjóti núna áðan. Svo það er satt sem sagt er að fátt er svo með öllu illt - að ekki boði nokkuð gott ;)


Bið ykkur vel að lifa

GG :)

Monday, June 14, 2010

Áhyggjur..

Fyrir allt löngu, þegar ég var þrúguð af áhyggjum sem ég myndi ekki eftir ef ekki væri fyrir þetta blogg, var ég byrjuð á þessu bloggi en náði ekki að klára. Ætla að leyfa því að fljóta þó titill þess eigi alls ekki við núna þar sem ég er í köben í góðu yfrilæti hjá Sibbu sys og Andra. Þau eru einmitt núna að elda mexikóskt lasagne og lyktin er ansi góð skal ég segja ykkur. En nóg um það og förum nokkra daga aftur í tímann......

Áhyggjur er mjög merkilegt fyrirbæri ekki síst þar sem 90% þeirra eru gjörsamlega tilefnislausar. Fólk talar oft um það hvað æskan sé yndisleg. Þá er maður frjáls og laus við allar áhyggjur. Við Helga hljótum að hafa verið mjög afbrigðileg börn þar sem við höfðum eilífar áhyggjur af öllu mögulegu og ómögulegu, þá var Helga þó öllu verri. Ef mamma var lengur en 10 mínútur niðrí frysti þá vorum við handvissar um að hún hefði lokast inni og ef við vorum þungt haldnar margar daga áður en við fórum í sunnudagaskólaferðalög um að mamma myndi gleyma að kaup ballerínukex. Við vroum og reyndar erum mjög góðar í að búa okkur eitthvað til að hafa áhyggjur yfir.


Nýjustu áhyggjur Helgu er að hún sé komin með krabbamein í góminn þar sem hún kom augau á pínu lítinn svartann blett, það þarf ekki að vera langskólagenginn til að sjá að þetta getur náttúrulega ekki verið neitt annað en illkynja krabbi og hún á aðeins stutt eftir.


Mínar áhyggjur eru öllu flóknari. Um daginn þegar ég var að virða mig fyrir mér í spegli fannst mér sem ég væri að gráhærð. Ég get svo svarið það. Skyndilega var sem krippa yxi upp af bakinu á mér og hrukkur á stærð við almannagjá tóku að myndast í andlitinu á mér. Jú enn er það víst óumflýjanlegt að eldast en ég verð samt að viðurkenna að ég átti ekki von á svo glöggum umerkjum öldrunarinnar strax. Velti því fyrir mér hvort þetta kunni að stafa af mikilli umgengni við aldraða upp á síðkastið og hvort ég gæti hafa smitast af einvherskonar öldrunarsjúkdómi. En það sem meira er að um leið og ég eldist með ógnarhraða þá sýni ég undarleg þroskafrávik (ansi skemmtilegt orð sem mamma kynnti fyrir mér um daginn, þroska frávik, hvað í andskotanum er það) en allaveg. Nú er ég sem sagt orðin tvítug og rúmlega það en studnum er eins og ég fái einhverskonar vanþroskaköst. Þá þyrfti t.d. að nota á mig öfuga sálfræði. Um daginn var ég að fara að lyfta og Helga var svo elskuleg að lána mér svona stóra teykgju úr plasti en hún bað mig sérstaklega að passa að týna henni ekki þar sem þetta væri besta teygjan hennar. Ég varð nú hálf móðguð yfir því að hún skyldi vera að biðja mig sérstaklega um að týna ekki teygjunni. Svo fór ég að lyfta og allt í góðu með það eeenn...það vita sennilega allir hvað gerðist svo. Jú ég fór heim en var varla búin að stöðva hjólið þegar ég fatta að ég hefði ekki sett teygjuna í töskun !!! Þetta átti náttúrulega ekki að vera hægt. Og svona atvik endurtaka sig alloft. Ef þetta er ekki tilefni til að hafa áhyggjur þá veit ég ekki yfir hverju maður á eiginlega að hafa áhyggjur...ekki get ég farið að sleppa því


En ég læt staðar numið núna, erum að fara að horfa á Danmörk - kamerún í HM, lítur reyndar ekki allt of vel út fyrir Danina komnir einu marki undir strax á 10. mínútu.

Kvennréttindadagskveðja frá Köben
GG ;)


Sunday, June 13, 2010

Æfingaskund

Góðan daginn kæru lesendur

Það er Helga sem heilsar ykkur þennan sunnudagsmorguninn. Æfing eftir tæpa klukkustund og því ekki úr vegi að stytta sér stundir með því að skrifa eitthvað misgáfulegt hingað inn.

Hin nunnan skildi mig eina eftir hérna í klausturleitinu þessa helgina þar sem hún fór norður í norð-vesturland. Ég ákvað að halda mig í borginni þar sem ég er loksins farin að geta æft eitthvað af viti og þarf að nýta tímann vel fram að fyrstu þraut. Fyrsta þraut er eftir nákvæmlega 2 sinnum 7 dagar mínus 1 = 13 daga. Það er evrópubikar í þraut sem verður hvorki meira né minna en í Tel Aviv í Ísrael. Það verður án efa mjög mikil upplifun að koma þangað jafnvel þó svo að sjóndeildarhringurinn einskorðist oft á tíðum einungis við hótelið og keppnisvöllinn í svona ferðum. Það er alltaf gaman að ferðast og koma á nýja staði.


Það sem verður þó mest spennandi er að sjá hvernig keppnin mun ganga. Ég trúi því og treysti að líkaminn muni halda en svo er það bara spurning hvernig formið er. Það er skrýtið að vera að fara að keppa hafandi ekki tekið neglingar á gaddaskóm síðan einhverntíman á síðasta ári. Ef 200 metra hlaupið myndi aftur á móti fara fram í sundlauginni og 800 metrarnir á róðrarvélinni er ég nokkuð viss um að ég væri í góðum málum :P EN það er ekki svo og því mun ég bara gera mitt besta og sjá hvert það skilar mér. Sama hvernig allt fer ætla ég allavegana að hafa gaman af hlutunum og njóta þess að vera að keppa, þá er allavegana hálfur sigur unninn.

Þetta undangengna tímabil hefur verið alveg stórskrýtið og frekar erfitt. Alltaf bíðandi og vonandi að hásinin verð betri og betri en án árangurs. Svo núna þegar hún er loksins orðin betri er maður alltaf skíthræddur við að hún versni aftur. Ég ætla samt að trúa því að ég hafi gert allt sem í mínu valdi stóð og að einhverju leyti náð að láta þessi meiðsli vinna mér í haginn, því það er jú þannig í lífinu að það er sama hvað hendir okkur við höfum alltaf val um að láta það draga okkur niður eða þá vinna okkur í haginn, þetta er allt spurning um hugarfar.

Ég þarf líka oft að minna sjálfa mig á að ég er ennþá bara 18 að verða 19 ára. Ég er frekar óþolinmóð að eðlisfari og fer þar af leiðandi oft framúr sjálfri mér. Ég þarf að læra að halda ró minni og vera þolinmóð. Leyfa hlutunum að taka þann tíma sem þeir taka og ekki hafa áhyggjur af einhverju sem ég get ekkert haft áhrif á.

Eftir æfingu í dag ætla ég að hvíla mig í sundlauginni eða í spa-inu í laugum og eyða svo deginum í að lesa hamingjubókina á kaffihúsi niðrí bæ. Þessi hamingjubók er stórskemmtileg lesning og þar er margt að finna sem á vel við mig. Ég reyni að skrifa hjá mér allt sem ég tel geta hjálpað mér og ætla að enda þetta blogg á nokkrum góðum setningum....

- Ég mun lifa og njóta dagsins í dag. Ég er viðbúin framtíðinni þegar hún kemur.

- Viðhorf mitt í dag mun ákvarða hvernig dagurinn verður.

- Hamingjan er það markmið sem öll önnur markmið miðast að. Hamingjan er efst í markmiðapýramídanum

- Við höfum val um að vera æðrulaus og vongóð um sérhverja framvindu lífsins.

- Við geum höndlað allt eins og það er, en aðeins í dag! Fátt mun buga okkur ef við einbeitum okkur einungis að deginum í dag.

Sumir eru þrælar framtíðarinnar á þann veg að þeir halda að lífið hefjist ekki fyrr en þeir ná einhverju langþráðu markmiði. Það er ranghugmynd að það veiti varanlega hamingju að komast á þennan langrþaða áfangastað því hamingjan felst í rauninni í því að koma auga á milliveginn á milli áfangastaðarins og svífandi augnabliks. Við verðum að njóta ferðalagsins í átt að áfangastaðnum sem skiptir okkur svo miklu máli - Hamingjan er upplifunin af að klífa í áttina að tindinum

Ég er farin á æfingu

Saturday, June 5, 2010

Hinn fullkomni föstudagur


Eins og við höfum áður komið inná þá erum við miklir aðdáendur Fréttablaðsins. Það eru þó ekki fréttir um olílekann í Mexíkóflóa eða sprenghlægilegar fréttir af meirihlutamyndun á húsþaki í Breiðholtinu sem fanga athygli okkar, heldur eru það merkilegri hlutir á borð við fylgitímaritin "Föstudagur" og "Matur". Reyndar lesum við alltaf íþróttafréttirnar, eða þær sem ekki fjalla um fótbolta...sem eru reyndar grátlega fáar.



En semsagt í þessu ágæta fylgitímariti "Föstudagur" eru vel valdir einstaklingar fengnir til þess að lýsa hinum fullkomna föstudegi í fimm liðum. Eins og endra nær setum við systur okkur oft í spor þessarra öfundsverðu viðmælenda blaðsins og birtum afraksturinn hér, enda höfum við ekki hlotið náð fyrir augum blaðamanna á Fréttablaðinu.



Við ákváðum þó að hafa daginn hversdagslegan, raunsæjan og á árinu 2010. Auðvitað myndi Helga vilja setja heimsmet í sjöþraut (en þess ber ekki að vænta á föstudegi þar sem flest þrautarmót enda á sunnudegi) og Gróa myndi ekki fúlsa við einni góðri troðslu í úrslitaleik WNBA...en það verður nú í fyrsta lagi á næsta ári.



1) Vöknum snemma og skellum okkur í hlaupagallann. Tökum hroðalega interval-æfingu sem endar með ógleði og lítilli lífslöngun. Mjólkursýran vellur út um eyrun og jörðin tekur að snúast á ótrúlegum hraða um sjálfan sig, og þar af leiðandi verður erfitt að standa í lappirnar. En það er sama, það jafnast ekkert á við að byrja daginn á vænum skammti af endorfíni, enda forfallnir fíklar þessa ágæta efnis.






2) Þegar hjartað er aftur farið að slá á eðlilegum hraða og sýruflæðið aðeins hægt á sér skellum við okkur í sund, spa og dekur með tilheyrandi nuddi, afslöppun og almennri vellíðan. Ekki væri verra ef veðrið léki við okkur og við gætum tekið dágóða brúnku.



3) Förum á nýju flottu rauðu ítölsku vespunni okkar niður í bæ og fáum okkur einhvern ríkulegan og vel útilátin (nóg af kaffi) bröns á einhverju af þeim hótelum sem enn halda í matseðlinn frá árinu 2007. Við sitjum úti og höldum áfram að sleikja sólina. Þaðan röltum við sem leið liggur í Kolaportið og gerum kostakaup eins og vanalega.




4) Hoppum upp í þyrlu og lendum á löngusléttunni heima í sveit. Niðrí í fjöru er pabbi búinn að sjósetja trylluna og því liggur beinast við að renna eftir fisk í soðið. Okkur til mikillar gleði hittum við þar fyrir systur okkar tvær, Sigurbjörgu og Kristínu sem hafa komið í óvænta heimsókn frá útlandinu. Fjörðurinn er spegilsléttur og fjörðurinn er fullur af fisk. Svo sterk er sólinn að silungurinn kemur meira að segja reyktur upp úr sjónum og tilbúinn ofaná rúgbrauð sem tekið var glóðvolgt upp úr hvernum með í nesti. Mömmu til ómældrar gleði verður tryllan aldrei þessu vant ekki vélarvana úti á miðju bollarhafi og því sleppum við við að synda í land í þetta skipti og björugnarsveitin fær að njóta þessa fagra föstudagskvölds óáreitt.



5) Svo er öllu tjaldað til í glæsilegri grillveislu þar sem að sjálfsögðu verður ekkert annað á boðstólnum en íslenskt lambakjöt og fyrsta flokks meðlæti. Mikil gleði verður ríkjandi meðal fjölskyldumeðlima og hláturinn aldrei langt undan. Nóttin er ung og dagsbirtan nýtt til hins ítrasta, við sitjum og spilum spil langt fram á nótt.


FULLKOMINN DAGUR!