Sunday, June 13, 2010

Æfingaskund

Góðan daginn kæru lesendur

Það er Helga sem heilsar ykkur þennan sunnudagsmorguninn. Æfing eftir tæpa klukkustund og því ekki úr vegi að stytta sér stundir með því að skrifa eitthvað misgáfulegt hingað inn.

Hin nunnan skildi mig eina eftir hérna í klausturleitinu þessa helgina þar sem hún fór norður í norð-vesturland. Ég ákvað að halda mig í borginni þar sem ég er loksins farin að geta æft eitthvað af viti og þarf að nýta tímann vel fram að fyrstu þraut. Fyrsta þraut er eftir nákvæmlega 2 sinnum 7 dagar mínus 1 = 13 daga. Það er evrópubikar í þraut sem verður hvorki meira né minna en í Tel Aviv í Ísrael. Það verður án efa mjög mikil upplifun að koma þangað jafnvel þó svo að sjóndeildarhringurinn einskorðist oft á tíðum einungis við hótelið og keppnisvöllinn í svona ferðum. Það er alltaf gaman að ferðast og koma á nýja staði.


Það sem verður þó mest spennandi er að sjá hvernig keppnin mun ganga. Ég trúi því og treysti að líkaminn muni halda en svo er það bara spurning hvernig formið er. Það er skrýtið að vera að fara að keppa hafandi ekki tekið neglingar á gaddaskóm síðan einhverntíman á síðasta ári. Ef 200 metra hlaupið myndi aftur á móti fara fram í sundlauginni og 800 metrarnir á róðrarvélinni er ég nokkuð viss um að ég væri í góðum málum :P EN það er ekki svo og því mun ég bara gera mitt besta og sjá hvert það skilar mér. Sama hvernig allt fer ætla ég allavegana að hafa gaman af hlutunum og njóta þess að vera að keppa, þá er allavegana hálfur sigur unninn.

Þetta undangengna tímabil hefur verið alveg stórskrýtið og frekar erfitt. Alltaf bíðandi og vonandi að hásinin verð betri og betri en án árangurs. Svo núna þegar hún er loksins orðin betri er maður alltaf skíthræddur við að hún versni aftur. Ég ætla samt að trúa því að ég hafi gert allt sem í mínu valdi stóð og að einhverju leyti náð að láta þessi meiðsli vinna mér í haginn, því það er jú þannig í lífinu að það er sama hvað hendir okkur við höfum alltaf val um að láta það draga okkur niður eða þá vinna okkur í haginn, þetta er allt spurning um hugarfar.

Ég þarf líka oft að minna sjálfa mig á að ég er ennþá bara 18 að verða 19 ára. Ég er frekar óþolinmóð að eðlisfari og fer þar af leiðandi oft framúr sjálfri mér. Ég þarf að læra að halda ró minni og vera þolinmóð. Leyfa hlutunum að taka þann tíma sem þeir taka og ekki hafa áhyggjur af einhverju sem ég get ekkert haft áhrif á.

Eftir æfingu í dag ætla ég að hvíla mig í sundlauginni eða í spa-inu í laugum og eyða svo deginum í að lesa hamingjubókina á kaffihúsi niðrí bæ. Þessi hamingjubók er stórskemmtileg lesning og þar er margt að finna sem á vel við mig. Ég reyni að skrifa hjá mér allt sem ég tel geta hjálpað mér og ætla að enda þetta blogg á nokkrum góðum setningum....

- Ég mun lifa og njóta dagsins í dag. Ég er viðbúin framtíðinni þegar hún kemur.

- Viðhorf mitt í dag mun ákvarða hvernig dagurinn verður.

- Hamingjan er það markmið sem öll önnur markmið miðast að. Hamingjan er efst í markmiðapýramídanum

- Við höfum val um að vera æðrulaus og vongóð um sérhverja framvindu lífsins.

- Við geum höndlað allt eins og það er, en aðeins í dag! Fátt mun buga okkur ef við einbeitum okkur einungis að deginum í dag.

Sumir eru þrælar framtíðarinnar á þann veg að þeir halda að lífið hefjist ekki fyrr en þeir ná einhverju langþráðu markmiði. Það er ranghugmynd að það veiti varanlega hamingju að komast á þennan langrþaða áfangastað því hamingjan felst í rauninni í því að koma auga á milliveginn á milli áfangastaðarins og svífandi augnabliks. Við verðum að njóta ferðalagsins í átt að áfangastaðnum sem skiptir okkur svo miklu máli - Hamingjan er upplifunin af að klífa í áttina að tindinum

Ég er farin á æfingu

1 comment:

  1. Áfram Helga :) Þetta er sko rétta hugarfarið!

    ReplyDelete