Thursday, December 30, 2010

Fyrsta blogg ársins 2011

Ég (GG) byrjaði á þessu bloggi milli jóla og nýárs en náði ekki að klára það í fyrstu atlögu. Ætla að leyfa láta það flakka þó það sem fram komi sé ekki í öllum tilvikum nýjasta nýtt.

----------------------------------------------------------------------------------------------


Ég sit núna ein inni í herbergi. Það er ekki alveg minn stíll (í það minnsta þessi síðustu ár eftir gelgju) að húka ein inni í herbergi, allra síst þegar ég er heima í sveitinni. Til dæmis kýs ég miklu frekar að vera með tölvuna á eldhús- eða stofuborðinu, þá sjaldan ég horfi á dvd geri ég það í sjónvarpinu frammi og svo eyði ég vitaskuld ómældum tíma í eldhúsinu. Svo það má segja að ég geri fátt annað en sofa í herberginu mínu enda ekki að ástæðulausu sem það er kallað svefnherbergi ;) En fyrir þessari einsetu minni núna er einföld skýring.Bráðlega verður Helga í þeim mæta sjónvarpsþætti Landanum. Já ég er ekki að skrökva. Þætti sem hefur það markmið að grafa upp alla hestu furðufulga landsins, þá sem ekki hafa rafmagn, tala bara í bundnu máli, komast ekki fyrir í sínu eigin húsnæði fyrir uglu-styttusafni og svona mætti áfram telja en nú er sem sagt komið að Helgu. Gísli Einars mættur á svæðið og er að spjalla við sveitastelpuna og sjöþrautarkonuna Helgu Margréti sem fer í húsin tvisvar á ári, á jólum og einn dag í sauðburði :P Og til að tryggja að mér bregði alveg örugglega ekki fyrir í þættinum læt ég mig hafa það að húka ein uppi í herbergi auk þess er veðrið algjör viðbjóður svo herbergið finnst mér fýsilegri kostur en að vera utandyra.




En ég vona að jólin hafi ekki farið fram hjá neinum þetta árið. Eins klisjukennd sem þau eru og hversu bumbult sem maður verður af öllu átinu þá eru þau alltaf jafn yndisleg. Jólin voru með hefðubundnu sniði þetta árið (eins og þau eiga að vera, helst ekkert að breytast). Undirbúningurinn var reyndar tekinn á met tíma. Þann 21. desember var sett í fluggírinn, gólfin skrúbbuð af þvílíkum krafti að margra ára drulla náðist burt, húsi ofskreytt að vanda og Sibba tók þvílíkum hamförum í bakstrinum að ég var farin að hafa áhyggjur af því að hrærivélin bræddi úr sér (hefur reyndar litlu munað síðustu ár enda vélin orðin aldurhnigin en hefur hingað til náð að þrauka þar til geðveikin er yfirstaðin). Svo fékk pabbi liðsstyrk í smökkunardeildina á þorláksmessu þegar Helga, Grjóni og Stína mættu á svæðið og vottuðu að allt stæðist ströngustu gæðastaðla. Svo það hafðist flest allt það sem átti að gera fyrir jólin á tilsettum tíma svo hægt var að tendra á trénu klukkan 6 á aðfangadagskvöld og borða jólamáltíðina þegar pabba fannst kominn tími til að sinna öllu því sem honum hefði ekki dottið í huga að gera á öðrum dögum en aðfangadegi.



Hér er sibba að skreyta litla jólatréð okkar. Hún gaf sér tíma til að brosa í myndavélina meðan hún hengdi kúlurnar á greinarnar. Þær voru reyndar eitthvað linar svo þær neðstu fengu lítið skraut.





Hér er Sibba búin að baða sig og fara í betri fötin, allt tilbúið, búið að kveikja á jólaljósunum og setja pakkana undir tréð og bara að bíða þangað til að pabbi hefur gert allt það sem fékk að sitja á hakanum framan af ári.



Það er nú ekki hægt að skirfa um jólin án þess að minnast á jólagjafirnar enda fékk ég margt góðra gjafa.Til dæmis fékk ég þennan gullfallega smákökudisk frá sibbu, ég hef sjaldan séð aðra eins feguðr. Hann á svo sannarlega eftir að sóma sér vel í kökuboðum framtíarinnar.







Svo gaf Helga mér ofoðslega fína sósukönnu sem var algjört þarfaþing þar sem engin var sósukannan í Hvassaleitinu og þegar sósa hefur verið á borðum þá hefur hún annaðhvort þurft að húka í pottinum eða vera borðin á borð í súpudisk usss.....


Ég fékk líka rosa skemmtilegan svona tímamæli þegar maður er að baka.









Ég fór aldeilis ekki í jólaköttinn, fékk haug af góðum flíkum t.d. föðurland og voðalega fínan jakka, boli, nærbuxur og ýmislegt fleira. Svo til að binda endhnútinn á þetta jólagjafa monnt þá fékk ég líka bækur, þar á meðal nýju uppskriftabókina hennar Nönnu, snyrtidót, skartgripi og fleira skemmtilegt :)






Föðurlandið góða ;)



En nú eru jólin eiginlega búin, allaveg svona í framkvæmd og regla að komast á tilveruna aftur. Stína fór út fyrir áramót og Helga fór til Svíþjóðar í gær og verður fram í miðjan mánuð. Það er því óvíst hvað verður með áramótaannál okkar nunna en við munum gera okkar besta svo úr honum verði þó ég þori engu að lofa.

En við óskum ykkur, kæru lesendur, gleði og gæfu á nýju ári með kærri þökk fyrir samfylgdina á liðnu ári.

Friday, December 24, 2010

JÓLAKVEÐJA



Nunnurnar eru komnar í jólaskap og allt að verða klárt fyrir jólin (þó við séum ekki alveg með það á hreinu hvað þetta "allt" er þar sem það virðist vera nokkuð breytilegt á milli ára, t.d. voru ekki gerðar neinar piparkökur þetta árið)

Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs. Áður en þið líðið útaf sökum ofáts, leiðið þá hugan að náunganum og þeirra sem minna mega sín.
Nunnurnar þakka liðnar stundir og hlakka til að taka púlsinn á komandi ári.
Njótið jólanna :)


Saturday, December 18, 2010

Góður dagur!

Jólanda og Kim á kaffihúsi. Fengum okkur þorsk að borða eftir æfingu, hann var góður :)


Einhver jólaleg hliðargata hérna í Vaxjö og kirkjan í bakrunn. Það er allt á kafi í snjó hérna!
Það eru bara tvö sæti í bílnum hans Kims og af því að ég er yngst þarf ég alltaf að vera í skottinu :P Ég kvarta ekki, það fer vel um mig :)
Jólanda að búa til kaffe latte.
Sannur Dani
Virkilega góður latte!
Jólanda að gera spilagaldur með nýju húfuna sína.
Í dag byrjaði ég að borða Sushi og það var virkilega gott! :)

Yndislegur dagur í dag. Það var bara ein æfing í morgun. Grindahlaup með Agne og Karen sem er alveg frábær grindahlaupsþjálfari. Frábær æfing. Svo fórum ég, Jólanda og Kim í bæinn. Fengum okkur að borða, versluðum jólagjafir og skoðuðum jólamarkað hérna. Það er rosalega jólalegt, allt á kafi í snjó og lúðrasveitir í jólasveinabúningum að spila úti á götunum. Svo tókum við Sushi heim til Kims, spiluðum og horfðum á jólamynd í sjónvarpinu. Ótrúlega huggulegt og gaman :) Ég geri mér sífellt meira og meira grein fyrir því hvað ég er ótrúlega heppin að fá tækifæri til þess að koma hingað og æfa við bestu aðstæður. Ég elska að æfa hérna. Andinn er svo góður og maður leggur sig alltaf 120% í hverja einustu æfingu. Svo er ekki amalegt að kynnast öllu þessu frábæra fólki. Get ekki sagt annað en TAKK.


Thursday, December 16, 2010

Örmyndablogg 2









Númer 1: Tobías, spretthlaupsþjálfarinn á svæðinu. Hann er mikill áhugamaður um mat þó hann beri það ekki utaná sér. Frábær náungi.
Númer 2: Jane in action
Númer 3: Ég, Kim og Jólanda. Eins og sést mjög greinilega er Kim kúluvarpari eða kuglestöder og han kommer fra Danmark. Hann er nýfluttur hingað til Vaxjö og Véddi er að þjálfa hann. Jolanda er þrautarstelpa frá Hollandi sem á rúmlega 6200 stig. Hún er hérna í æfingabúðum hjá Agne eins og ég.
Númer 4: Jolanda er mikill stuðpinni eins og sjá má.
Númer 5: Jane er aftur á móti mun rólegri. Hún hleypur stuttu grindina.
Númer 6: Eftir kúluvarpsæfingu í morgun. Kim, ég og Nick, annar danskur ungur kúluvarpari sem Vésteinn er að þjálfa. Kúluvarpsæfingin í morgun var svo ótrúlega skemmtileg því það var svo mikill andi í gangi hjá þessum strákum og maður hreyfst svo auðveldlega með. Mér gekk ágætlega á æfingunni.
Númer 7: Kim, Jolanda og Nick - eitursvöl

Frábær dagur að kvöldi kominn. Það snjóaði rosalega mikið hérna í dag. Í gær fór ég og hitti Carl Askling hamsérfræðing í Stokkhólmi. Það gekk mjög vel!
Ég endaði daginn á því að borða lax og í heitapottinum, gufunni og sundlauginni hérna á hótelinu. Það var yndislegt!

Hlakka til á morgun :)

Tuesday, December 14, 2010

LOKSINS !!

Leiðinlegt að blogga strax yfir Helgu litlu en svona er þetta bara, harður heimur :P En ég verð bara að deila gleði minni með ykkur því ég er komin í svo ótrúlega langþráð jólafrí að það hálfa væri nóg. Man ekki einu sinni hvenær ég fór að þrá það af svo heilum hug að það komast varla annað að þar sem var reyndar verra, sérstaklega í prófalædrómnum.

Ég var sem sagt í síðasta prófinu í morgun og hef verið að vinna í því í dag að endurheimta geðheilsuna. Það gengur bara með miklum ágætum og hjálpaði þá góð tiltektartörn, tvær æfingar og alveg endurnærandi ferð í hjálpræðisherinn til. Afgreiðslumaðurinn átti í miklu sálarstríði þar sem hann var að berjast við að klára að semja texta (á ensku vitanlega) og lét sig ekki muna um það að syngja fyrir okkur sem vorum viðstödd. Það sem meira var að hann kunni ekki á hljóðfæri og var því ekki kominn með neitt lag við textann svo þetta var í svon spunastíl hjá honum, bjó bara til laglínuna jafnóðum. Mjög skemmtilegt ;) Meðferðin heldur svo áfram næstu daga enda nóg af rusli og drasli í íbúðinni og af nógu að taka í salnum. Ég vonast til að verða komin í fyrra horf fyrir jól og geti þá hugsanlega komið frá mér óbrenglaðri setningu og haldið einbeitinugu lengur en 5 mín í senn ;) En ég bý nú samt ekki svo vel að geta farið í endurhæfingu út fyrir landsteinana eins og hinn helmingurinn og verð því að meta batahorfurnar á raunsæjan hátt :P Hins vegar ætlum við KR stúlkur (jú ætli við tökum ekki amk þjálfarann með líka) að bregða undir okkur betri fætinum á morgun og halda vestur í Stykkishólm þar sem síðasta viðureign þessa árs verður háð. Við ætlum heldur betur að taka vel á því þar og fara kátar í jólafrí !

En nú get ég að nýju tekið ástfóstri við okkar ylhýra tungumál sem ég er búin að blóta í sand og ösku síðustu vikur. Vona að mér verði fyrirgefið það en vona samt meira að e-ð af því sem ég hef verið að reyna að læra staldri lengur við í minninu en tvo daga og komi mér jafnvel að e-u gagni, það væri nú ekki verra. En hvað um það. Held það sé við hæfi að enda þetta á málinu eins og það verður fallegast af því ég er að taka það í sátt aftur

Meyjarhjarta

Yndis bezta elskan mín,
ástum festa baugalín!
Hjartað góða þekki eg þitt,
það er ljóðaefnið mitt.

Það er hreint sem bregði blund
blómstur seint um morgunstund,
djúpt sem hafið heims um hring
heitri kafið tilfinning.

Það er gott, sem gaf það þér
guð, og vottinn hans það bar,
engum skugga á það slær,
auma huggað bezt það fær.

Það er hlýtt af ástaryl,
öllum blítt og mest í vil.
Logann ól það elskunnar
undir skjóli miskunnar.

Það í heima horfir tvo,
huganum sveima leyfir svo,
það er gefið og þó sig á.
........
Jónas Hallgrímsson
Hvað varð eiginlega um að menn semji svona ljóð?? Allavega hef ég ekki fengið neinar svona leynilegar sendingar upp á síðastið. Stórfurðulegt alveg hreint.
En ætli það sé ekki best að koma sér í rúmið. Ekki það að mig langi til að eyða jólafríinu í svefn en held samt að það veðri ekki hjá því komist að fórna amk litlum hluta af því fyrir svefninn. Það er nú bara eins og það er.
Hafið það afskaplega gott og munið að jólastressið getur haft mjög heilsuspillandi áhrif.
Gógó

Örmyndablogg





Er komin til Vaxjö eftir ákaflega þægilegt ferðalag. Búin að taka æfingu og hitta Karolinu Kluft, það var upplifun. En nú er ég orðin þreytt og hlakka til að skríða undir sæng og lesa góða bók. Læt nokkrar örmyndir duga:



Númer 1: Ég náði að fara í klippingu í gær í öllum hamaganginum sem fylgir því að klára jólaprófin og stökkva til útlanda í sömu andrá.
Númer 2: þessi mynd á að sýna að ég fékk heila sætaröð fyrir mig í fluginu í morgun. Ég nýtti mér það til hins ítrasta og svaf ljúft alla leiðina.
Númer 3: Sibba elsku systir mín var svo góð að koma og hitta mig á Kastrup á meðan ég beið eftir lestinni til Vaxjö. Hún gaf mér ótrúlega flotta afmælisgjöf, mandarínur og glútenlausar kökur :)
Númer 4: Svíþjóð séð út um lest. Hér er snjór og hér er kalt. Lest er skemmtilegur ferðamáti.
Ekki lengra í bili
Ætla að reyna að vera dugleg að taka myndir og setja hér inn, kannski verða myndirnar af einhverju skemmtilegra næst :P






Wednesday, December 1, 2010

Leynist líf í Hvassaleiti ??

Já, innan um bókastaflana, öll blóðin dótið og draslið vottar fyrir lífi. Þetta líf er frumstætt og lífsmynstrið afar einhæft, í grófum dráttum má einknennist það af því að fara á fætur og svo er beðið í ofvæni eftir að geta farið aftur að sofa svo eru einstaka útúrdúrar sem aðallega einkennast af mat og hreyfingu. En hin barnslega tilhlökkun sem lætur mann halda í vonina um að betri tíð leynist á bak við bókastaflana.

Ég held að ég hafi ekki hlakkað til svona mikið til margra hluta síðan ég var ca. 7 ára
Ég hlakka svo til
að komast heim í sveit
að geta skilað öllu leiðinlegu bókunum á bókasafnið og taka eitthvað skemmtilegra
að þrífa allt hátt og lágt
að geta sofið lengur en til 7 (sem ég á samt pottþétt ekki eftir að gera þegar það verður svo eitthvað skemmtilegra en lærdómurinn sem bíður eftir mér)
að taka alla kjólana mína úr fataskápnum, raða þeim upp eftir litum
að fá stínu og sibbu heim
að fara í kolaportið, góða hirðinn, hjálpræðisherinn o.s.frv
að sauma út
að þrífa meira
að fara á kaffihús og lesa tímarit
að elda e-ð sem tekur lengri tíma en korter

Bara "nokkrir" klukkutímar þar til ég get farið að sofa ;)

Gróa