Saturday, October 23, 2010

Meira frá Vaxjö!

Sit inni á huggulega hótelherberginu mínu í Vaxjö, horfi á Federer spila við Ljubicic á Stokkhólm open í tennis, maula íslenskan harðfisk og drekk sódavatn úr vélinni sem er staðsett frami á gangi. Mycket bra!

Það var bara ein nokkuð löng og erfið æfing í dag. Byrjuðum á að hita upp í fótbolta og það var gaman. Krakkarnir í hópnum hérna eru semsagt nokkrar þrautarstelpur og svo slatti af spretthlaupurum og grindarhlaupurum sem Tobias, spretthlaupsþjálfari og aðstoðarþjálfarinn hans Agne sér um. Hérna er gert ofboðslega mikið af svona coordination æfingum með grindum og allskyns svoleiðis, eitthvað sem ég veit að ég hef mjög gott af og finnst líka gaman að gera. Eftir þær var hraða-tíðni sprettir og svo grindahlaupsæfing. Hún gekk ágætlega en engu að síður margt sem þarf að vinna í. Að henni lokinni hljóp ég svo 3x(100-200-300-200-100) með 100 metra labbi á milli spretta og 5 mín á milli setta. Það gekk alveg oboðslega vel og gaman að hlaupa með stelpunum, önnur þeirra er 400 metra grindahlaupari en hin er í stuttu grindinni. Það er svo gaman og gott að ganga vel á æfingu, vera sáttur við sjálfan sig og líða vel, enda byggist þetta allt á því - að líða vel og vera ánægður í eigin skinni :)

Eftir æfingu var matur og svo fundur með Védda, Agne og Gumma. Við fórum yfir stöðuna og ræddum þá þætti sem við ætlum að hafa að leiðarljósi og ákváðum ýmis skipulagsatriði. Það sem ég veit að verður mér erfiðast í þessu er að taka skynsamlegar ákvarðanir og ekki taka prógramminu sem heilögu plaggi sem alls ekki má hnika til og breyta eftir því sem þarf og er nauðsynlegt. Þetta snýst allt um skynsemi og ég ein veit hvernig líkaminn er á sig kominn og hvað hann þolir. Ég hlakka til að takast á við þá áskorun að læra að hlusta á líkamann minn og að halda aftur af sjálfri mér þegar þess þarf. Áskorun sem ég ætla að standast :)

Eftir fundinn röllti ég pínu um bæinn hérna og keypti mér leggings og peysu, þannig að eins og þið sjáið er þetta búinn að vera alveg hreint prýðilegur dagur hjá mér :)
Í kvöld erum við svo að fara í mat heim til Agne og fjölskyldunnar hans, og þangað koma líka Véddi og co. Í gærkvöldi buðu Véddi og Anna okkur í mat og það var gott og gaman. Vésteinn er náttúrulega með einhvern mest motivational lyftingarklefa í heimi í bílskúrnum hjá sér!

En jæja ég ætla að láta þetta duga í bili, best að kíkja smá í námsbækurnar áður en við förum í mat. Á morgun eru tvær æfingar, hástökk fyrripartinn og kúla seinnipartinn. Á mánudaginn förum við svo til Stokkhólms og hittum lækni sem sérhæfir sig í hammeiðslum, og svo förum við bara heim snemma á þriðjudaginn.

Þetta er búið að vera ævintýri og það er rétt að byrja :)

P.s. verðið líka að lesa bloggið hennar Gróu hérna að neðan.....(sorry að ég bloggaði yfir þig Gróa mín)

Friday, October 22, 2010

Meiri gleði og gaman

Aðeins meira af því góða og skemmtilega.....



Ekki fyrir svo löngu var ég eins og svo oft áður stödd í einni af mínum uppáhalds verslun, hjálpræðishernum. Þegar ég er þar inni að gramsa koma inn tveir karlar og ein kona. Ég held að ég móðgi ekki neinn með að segja að þau voru alveg greinilega rónar. Útgangurinn á þeim var alveg skelfilegur og ekki var lyktin skárri. Þetta ólánsama fólk fór til kvennanna sem vinna í búðinni og það var greinilegt að þau höfðu komið þarna áður því þær virtust þekkja þau vel. Ég komst ekki hjá því að fylgjast með því sem þeim fór á milli. Rónarnir sögðu farir sínar ósléttar, þeim hafði verið hent út úr sínu eigin heimili og gengið í skorkk á þeim og ég veit ekki hvað.....ég veit ekki hvort þetta var allt alveg satt eða aðeins fært í stílinn en vissulega voru þau með einvherja áverka hvernig sem það gerðist. En allaveg þá sárvantaði öðrum manninum buxur og hinum sokka, því þeir voru allir blautir og skítugir og komust ekki heim til að skipta um föt og hvort það væri nokkuð möguleiki að þær lánuðu þeim fyrir þessu. Það var nú ekki vandamálið! Mínar dressuðu sko þrímenningna upp frá toppi til táar. Mér fannst alveg yndilsegt að fylgjast með þessu. Þær komu svo ótrúlega vel fram við rónana. Eins og þær væru starfstúlkur í Sævari Karli að aðstoða ríkasta manninn í borginni að velja sér jakkaföt. Og þeir urðu svo ofboslega þakklátir og glaðir, og kysstu þær og föðmuðu. Lofðuð svo að þeir skyldu borga þetta seinna ;)

Já þetta gladdi sko mitt litla hjarta.



Annað sem gladdi mig. Ég þurfti aldrei þessu vant að fara á bókasafnið. Bara rétt að hlaupa inn til að ná í eina bók(+skoða tískublöðin+uppskriftabækurnar+nýjustu bækurnar...). Ég var í þann veginn að fara að brjóta í bága við ögin og ætlaði ekki að borga í stöðumælinn heldur freysta þess að ég yrði fljótari tilbaka í bílinn en næsti stöðmælavörður sem var hvergi í augýn (og spara þannig ca 50 kall). En þá staðnæmdist bíll fyrir framan mig og rúðan skrúfuð niður. Þá er það þessi líka yndælis kona sem spyr hvort ég vilji fá miðann hennar, hún sé að fara en miðinn renni ekki út fyrr en eftir nokkra klukkutíma. Já þetta kalla ég elskulegheit. Hún forðaði mér frá því að brjóta lög, sparaði mér pening og svo varð ég svo dæmalaust glöð yfir því hvað lánið lék við mig þarna.






Ég keypti mér bók í gær


Jébbs...ekki nema tveir mánuðir í jól svo ekki seinna vænna en fara að huga að föndri, jólakortagerð og auðvitað bakstrinum.......nei kannski ekki alveg, jólin ekki alveg það sem ég ætti að vera að hugsa um núna. Enda er ég að spara mér bókina, er nebblega ekki búin að skoða hana ennþá! Hún liggur bara hérna á borðinu fyrir framan mig og bíður þess að rétti tíminn renni upp. Já ég ætla sko að velja góðan tíma til að glugga í þessa elsku. Kósýheit inni í hlýunni með kaffibolla við kertaljós. Þá mun jólaandinn hellast yfir mig. Mikið verður það ljúft ;)

En þangað til ætti ég kannsi að huga að því að glugga í námsbækurnar, eins spennandi og það hljómar :/ Það er samt eiginelga allt of fallegur dagur til að sóa honum í lærdóm. Svona daga á maður bara að vera á röltinu niðrí bæ!!

Minni svo alla á að á morgun eigum við leik á móti Snæfelli í DHL- höllinni. Enginn ætti að missa af því :) Sé ykkur þar !

Gróa

Thursday, October 21, 2010

Vaxjö

Smá fréttir af mér hérna í Vaxjö

Við Gummi komum í gær, ferðalagið gekk eins og í sögu, já kannski fyrir utan lítinn krakka í flugvélinni sem var ekki sáttur við lífið og hélt uppá flugtakið með því að öskra mjög hátt. (Öskrin í krakkanum í blokkinni hljóma örugglega eins og ljúf sinfonía eftir þetta) En ég lét öskrin ekki á mig fá og svaf í sirka tvo tíma og að sjálfsögðu með opinn munninn. Þarf eitthvað að skoða þennan svefnstíl :P

Lestin til Vaxjö gekk mjög vel og nýttum við Gummi tímann til þess að spila. Við tókum örugglega rúmlega 15 skítakalla og ég vann hvern einn og einasta, þannig að enn sem komið er hefur Gummi ekki unnið einn skítakall. En við skulum ekkert vera að fara yfir úrslitin í öðrum spilum.

Þegar til Vaxjö var komið beið Agne eftir okkur á lestarstöðinni og keyrði okkur upp á hótel og við fengum okkur að borða. Tókum svo fína lyftingaræfingu nokkrum tímum seinna. Agne skoðaði tæknina mína í lyftingununm, tók mig upp á vídeó og svo skoðuðum við það. Hann var mjög ánægður með tæknina mína :) Ég fékk reyndar smá slap in the face þegar hann sagði mér að Karolina Kluft á 105 í clean þegar hún var 67 kíló og í dag er hún 62-64 kíló! Góðan daginn! En nú er ég náttúrulega farin að bera mig saman við eina bestu íþróttakonu sem uppi hefur verið, en það er líka bara allt í lagi. Ég hitti ekki Kluft í gær því henni var skipað að hvíla í gær. Hún kemur á æfingu í dag og þá hitti ég hana vonandi :)

Æfingaaðstæðan hérna er mjög góð. Tartið hnausþykkt og mjúkt og svo er hérna líka innannhúss gervigras fótboltavöllur. Lyftingaklefin er vel sveitalegur og það er gott.

Núna eftir hálftíma er ég að fara á hoppæfingu og svo seinnipartinn fer ég með spretthlaupsþjálfaranum hérna og fleiri íþróttamönnum í "Hill running" sem ku vera einhverskonar brekkusprettir. Það verður áhugavert :)

Þannig að eins og lesendur sjá er þetta frábært og ég er svo þakklát fyrir þetta tækifæri! Ekki skemmir fyrir að hótelið er í aðal-verslunargötu bæjarins þannig að ég ætti að geta dundað mér eitthvað á milli æfinga, svona ef ég verð þreytt á skólabókunum (sem nóta bene liggja ennþá óhreyfðar ofaní tösku)

En jæja, best að koma sér á æfingu
Já og ég gleymi að minnast á það að þegar ég vaknaði í morgun leit ég út um gluggann og þá var snjór yfir öllu! Eins gott að ég tók úlpuna mína með :)

Saturday, October 16, 2010

.......


Í tilefni þess að ég átti yndislega æfingu í morgun langar mig að deila með ykkur myndaseríu sem ég var að finna á netinu. Hún minnir mig á það hvað ég á að vera þakklát fyrir þann líkama sem ég hef og fyrir að fá tækifæri til þess að æfa og keppa. Það er til fullt af fólki sem glímir við erfið veikindi, sjúkdóma og meiðsli sem gera að verkum að þau fá ekki einu sinni að prófa að gera allt það sem ég lít oftast á sem sjálfsagðan hlut!




Verum þakklát fyrir það sem við höfum, við vitum aldrei hvenær fótunum getur verið kippt undan okkur!

Thursday, October 14, 2010

Smá pæling

Það er orðið langt um liðið frá því hér varð vart við lífsmark. Hvort sem ykkur líkar það betur eða verr þá erum við nunnur báðar á lífi og við hesta heilsu (þar að segja hesta sem sloppið hafa veið pestina). Svo öðru verður um að kenna ritleysið en skyndilegu dauðsfalli. Verðum aldrei þessu vant að bregða fyrir okkur almennri leti og önnum. Þessa dagana fæst ég aðallega (fyrir utna allt hitt) við ritgerðarskrif og gott betur en það ljóðaritgerðarskrif. Eins og von er og vísa er ljóð þetta sem mér er gert að skrifa um óskiljanlegt með öllu svo ég mér kemur nokkuð í hug sem vert er að láta frá sér fara á prenti. Ég færi létt með að skirfa 10 blaðsíðna ritgerð um blómkál en um leið og viðlíkingar, stuðlar og allegóría blanda sér í málið er allt stopp. Að öllu bulli og málalenginum sleptum held ég að allt kæmist fyrir á gulum post-it miða. Svo er ég að sanka að mér heimldum fyrir aðra ritgerð um enn skemmtilegra efni, gömlu handritin og hversu miklu er vert að trúa af því sem í þeim stendur. Já þessi blessuðu handrit sem við erum svo stolt af að geta lesið en þegar upp er staðið eru það bara e-r handritafræðingar og aðrir spegúlantar sem geta staulað sig fram úr þessu pári. Ég hef þess vegna verið að sanka að mér flest öllum þeim bókum sem eitthvað hafa um þetta efni að segja og því farið ófáar ferðir á öll helstu bókasöfn borgarinnar síðustu daga. Það væri nú ekki nema gott um það að segja nema að nú er staflinn af uppskriftabókunum sem ég er með í láni orðin ískyggilega hár. Ég hef lítið sem ekkert gluggað í handrita bækurnar en hef lesið hverja uppskriftabók spjaldanna á milli, aftur á bak og áfram.





En aldeilis nóg um það.



Fólk er sífellt að draga annað fólk í dilka eins og lömb á haustin. Hvað meina ég ? Jú við setjum annað fólk og okkur sjálf í einvherja flokka. Þessi er hommi, hinn er kommi, hún er rauðsokka og þessir hættulegu þarna í hettupeysunum eru unglingar. Einhvertíman endur fyrir löngu lærði ég um einvherja sovna hópa í félagsfræði og hvernig þeir væru tilkomnir en það var ekki merkilegra en það að ég muni það núna. En þessi mishepnaði inngangur átti að leiða til hóps fullorðinna. Það hefur nebblega lengi brunnið á mér sú spurning hvort ég sé virkilega orðin fullorðin. Ég soldið erfitt með að skilgreina sjáfa mig. Ég er komin á þrítugsaldurinn svo ég get varla verið unglingur lengur en samt verð ég alltaf jafn hneyksluð þegar e-r kallar mig konu !! Ég spurði vísindavefinn að þessu um daginn. Hann hefur nú svar við flestu en hefur þó ekki getað svarað þessari spurningu. Wikipedia gefur þessa skilgreiningu en ég er nú samt engu nær.



Fær t.d. fullorðið fólk heimþrá. Nú er langt síðan ég fluttist að heiman (þó ég búi náttúrulega alltaf heima í sveit þó það líði margir mánuðir milli þess að ég komi þangað) en oft verð ég alveg þjökuð af heimþrá og þrái ekkert heitara en að komast heim til mömmu minnar, já ég er alveg svakalega mikil mömmustelpa, meiga fullorðnir það ?? (stína þú þarft ekki að koma með einvherja sögu af mér þegar ég öskraði og grenjaði næstum frá mér líftóruna þegar mamma svo lítið sem fór á klóið) . Já þett er ansi flókið mál og erfitt að skilgreina þetta hugtak. Er maður fullorðinn eftir 18 ára ? Nei andskotinn....Eða þegar maður eignast börn ? Margir eingast engin börn,verða þeir þá aldrei fullorðnir. Þá held ég að ég láti barneignir eiga sig. Ef einvher býr svo vel að hafa svarið við þessu þá væri það vel þegið, þá get ég farið að hugsa um e-ð annað.

Reyndar kallaði mig heldri maðu unga fallega stúlku um daginn, get alveg sætt mig við þá skilgreiningu ;)



En það þarf nú samt ekki að vera leiðinlegt að eldast, allavega finnst þessum herramanni það ekki







Læt þetta duga í bili

Gróa

Wednesday, October 6, 2010

Hrós

Það mætti halda að þetta blogg okkar systra væri orðið einhverskonar sjálfshjálpar-blogg. Í síðustu færslu reyndi Gróa að kenna ykkur að njóta lífsins. Það getur hjálpað svo mikið ef maður reynir að koma auga á það sem er skemmtilegt en er ekki sífellt að pirra sig eða svekkja sig á öllu því leiðinlega sem við þurfum að gera. Þannig að Gróa fær klárlega prik fyrir síðustu færslu.

En nú ætla ég að tala um hrós. Ég hef oft reynt að taka mig á í því að hrósa fólki, og kannski ekki síst fólki sem ég þekki lítið eða ekkert. En ég hef líka rekið mig á að það að hrósa einhverjum er bara miklu erfiðara en að segja það, eða réttara sagt, maður gelymir því alltof oft. T.d. þegar maður sér konu í gasalega smekklegri kápu og maður hugsar inni í sér "Vá hvað þetta er einstaklega klæðileg flík" en afhverju hugsar maður það bara inní sér? Er ekki miklu betra að segja það bara upphátt við þessa smekkskonu. Hver veit nema að konan hafi verið nýbúin að kaupa sér kápuna án þess að hafa efni á því og ef til vill með samviskubit yfir því, en með hrósinu myndi þetta samviskubit klárlega hverfa eins og dögg fyrir sólu. Ég þekki það mjög vel af eigin raun hvað eitt lítið hrós getur gert mikið fyrir mann. Í morgun t.d. var ég að taka erfiða hlaupaæfingu. Eftir einn sprettin skakklappast ég hokin til baka þegar ein kona sem gekk framhjá stoppaði og sagði "Þú ert alveg frábær!" og svo hélt hún bara áfram að labba, ekki flókið fyrir hana. En þetta hrós gerði hinsvegar gæfumunin fyrir mig, ég rétti úr bakinu og mér fannst ég alveg frábær. Ég var full sjálfstrausts, fílaði mig ótrúlega vel og æfingin gekk eins og í sögu. Ég var svo heppin að þetta var snemma dags og því fyldi þessi gleðitilfinning mér allan daginn og dagurinn var fyrir vikið alveg frábær :)

Í gær var ég líka í heitapottinum og er að spjalla við gott fólk um íþróttirnar og fleira. Seinna þegar ég er farin í annan pott kemur ein konan úr pottinum til mín og vill fá að biðja mér blessunnar, að ég megi ná þangað sem ég ætli mér og að guð muni vernda mig á leiðinni. Svolítið sérstök upplifun en ég kunni virkilega vel að meta hana. Svo óskaði hún mér góðs gengis og gekk á braut. Yndisleg kona sem að kann að gefa af sér.


Það er nefnilega þetta með að gefa af sér! Þeim mun meira sem við gefum af okkur, þeim mun meira "feedback" fáum við. Bara það að brosa til náungans og reyna að gefa frá sér jákvæða orku gerir að verkum að smám saman fáum við sífellt fleiri bros til baka og í kringum okkur verður ekkert nema jákvæðni og gott andrúmsloft.
Náungakærleikurinn er svo mikilvægur. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum ekki ein í heiminum heldur snýst lífið að miklu leiti um samskipti okkar og samvinnu við annað fólk. Ef við berum umhyggju fyrir náunganum þá fáum við það til baka. Um daginn sat ég á kaffihúsi þegar ég tek eftir því að konan á næsta borði stekkur upp og hleypur út á götu. Hún stoppar hjá blindri konu sem er greinilega villt. Hún spjallar við hana, hjálpar henni yfir götuna og vísar henni veginn. Svo kemur hún bara aftur inn og heldur áfram að drekka kaffið sitt. Með þessu hjálpaði hún ekki bara gömlu konunni heldur leið henni sjálfri örugglega betur fyrir vikið og það sem meira er, mér leið miklu betur við að sjá hversu umhyggjusöm og góð kona þetta var, að það eru til hversdagshetjur út um allt! Tökum þær okkur til fyrirmyndar.


Þannig að ef þú hefur færi á að hrósa eða hjálpa einhverjum, gerðu það þá! Hver veit nema að þú bjargir deginum fyrir viðkomandi. Allavegana skaltu byrja á því að brosa, það er svo miklu skemmtilegra :)