Thursday, July 29, 2010

Evrópumeistaramótið í Barcelona

Sit uppi á herbergi 10-11. Já þið sem haldið að þið séuð að uppgötva fyndinn brandara um að það sé opið allan sólarhringinn í herbergi 10-11 þá þykir mér mikill miður að segja ykkur að það er nú þegar búið að uppgötva skrýtlu þessa við mikinn fögnuð okkar herbergisfélaganna.

Akkúrat þessa stundina sit ég hérna alein og hlusta á eitthvað raggie-popp úr Kyrrahafinu sem Ásdísi hefur tekist að troða ansi vel inn í hausinn á mér. Ásdís er farin út á völl til þess að keppa í úrslitum í spjótkasti. Það er enginn smá árangur sem stelpan er að ná, að vera meðal tólf bestu spjótkastara í Evrópu er fáranlega góður árangur! Ég veit að hún á eftir að standa sig vel í úrslitunum á eftir og sama hvernig fer verð ég alltaf mjög stoltur æfingafélagi með meiru :p

Á morgun er svo röðin komin að mér. Ég verð nú að segja að það er svolítið erfitt að gíra sig upp fyrir annað stórmót svona strax þar sem ég er eiginlega ennþá að jafna mig eftir spennufallið sem fylgdi HM. En það er samt frábært að vera hérna og mér líður vel í Barcelona. Að sjálfsögðu ætla ég að gera mitt besta en engu að síður leggjum við aðallega upp með að hafa gaman af keppninni og hafa gleðina í fyrirrúmi. Ég hlakka allavegana ekkert smá til þess að fá að keppa við Jessicu Ennis og allar hinar drottningarnar - það er nú viss áfangi! Allavegana þá eru himinháar árangurslegar væntingar ekkert að drepa mig.

Þetta verður nú alveg voðalega stutt að þessu sinni. Ég byrja að keppa á morgun klukkan níu að íslenskum tíma. Það er ekki sýnt frá mótinu á RÚV en það er án efa hægt að finna mótið einhversstaðar á netinu.

Ég hlakka allavegana til þess að láta heyra í mér aftur eftir keppni því þá ætla ég að vera hoppandi kát og hress :)
Njótið verslunarmannahelgarinnar og gangið hægt um gleðinnar dyr. Mér þykir leiðinlegt að missa af samkomu bindindismannafélags Vestur Húnvetninga en svona er nú bara lífið - ég valdi Evrópumeistaramótið að þessu sinni :P


Sunday, July 25, 2010

Enn meiri dramatík.....

Nei nú er mér allri lokið. Krían hefur unnið sigur og er um það bil að leggja Hrútafjörðinn undir sig. Ég hef oft sagt hvaða hug ég ber til þessara fulga og ég fer sko ekki af þeirri skoðun núna þó þær telji sig hæstráðandi á mínum heimaslóðum. Við Arney héldu í hættuför í mitt kríuvarpið nú um helgina og freistum þess að finna kríuunga en þeir eru sjaldséðir þar sem fáir hætta sér í svo mikla nálægð við varpsvæði illfyglanna enda engum óhætt þar. Ætlunin var að gera heimildarmynd um þessar hættu för

En því miður tókst ekki að klára verkefni þar sem myndatökumaðurinn varð fyrir skyndiárás og þurfti að taka sprettinn meðan að aðstoðarmanneskja stóð og skellihlóg. En sá hlær best sem síðast hlær því þegar að krían hafði ellt mig upp að bæjardyrum snéri hún við beinustu leið til Arneyar sem fékk þá að taka til fótanna.

En það er aldrei að vita nema takist að leggja lokahönd á myndina um næstu helgi.

Ég var sem sagt heima í sveit um helgina, ósköp sem það var nú gott (fyrir utan sífellar árásir frá kríum). Veðrið var alveg einstakt á þessu svæði á mörkum hins byggilega heims, 20°hiti og sól, ekki amalegt það.

Á sunnudaginn héldu ma&pa svo í sitt árlega og stórkemmtielga sumarfrí. Ferðinni heitið eitthvað vestur á firði, aldrei þessu vant, á besta bílnum á bænum að pabba mati, bláu skutlunni. Á meðna mamma þeyttist til og frá að pakka niður fyrir reisuna stóð pabbi og galaði hvar í ósköpunum bók ferðafélagsins um vestfirðina væri og hvort þau gæti nú ekki farið að leggja af stað ;) Mamma auðvitað löngu búin að setja bókina oní bakpoka. Vonandi verður fríið ánægjulegt hjá þeim, ekki verður það langt í það minnsta. Pabbi vill sífellt vera að fara eitthvað en hann hefur samt engan tíma til að vera að heiman og er því yfirleitt ekki fyrr lagður af stað en hann er kominn heim aftur.

Jæja best að fara að gera eitthvað af viti, hvað sem það nú verður.

Bless í bili

GG :)

Friday, July 23, 2010

Brons á heimsmeistaramóti unglinga!

Ég veit ekki hversu skynsamlegt það er að skrifa hingað inn akkúrat núna, nokkrum klukkutímum eftir að ég klára 800 metra hlaup og næ að tryggja mér bronsið á heimsmeistaramóti. En tilfinningin er bara svo stórkostleg og mig langar til að varðveita hana og hví ekki að deila henni með ykkur hérna á bloggsíðunni.

Fyrir ári síðan, nokkrum mínútum eftir að ég tognaði í langstökkinu eftir að hafa verið í forystu í þrautinni á Evrópumeistaramótinu, setti ég mér það markmið að verða heimsmeistari 19 ára og yngir ári seinna, semsagt núna í ár. Því miður náði ég ekki því markmiði mínu, en þannig er nú bara lífið. En þegar ég hugsa lengra til baka - þegar ég var bara smábarn á vellinum heima að kasta bolta og gera háar hnélyftur - dreymdi mig um að komast einhvern daginn á heimsmeistaramót og keppa við þær bestu. Í þá daga datt mér ekki einu sinni í hug að láta mér dreyma um að fara á verðlaunapall á stórmóti. Á morgun mun sá draumur engu að síður rætast. Ég fæ að stíga upp á verðlaunapall á heimsmeistaramóti, fá pening um hálsinn og sjá íslenska fánann fara upp. Það verður örugglega mögnuð tilfinning og þessi verðlaun verða aldrei tekin af mér. Ég mun eiga þennan bronspening um ókomna tíð og það er gott að hugsa til þess.

Síðustu tveir dagar eru líklega tveir erfiðustu dagar sem ég hef gengið í gegnum. Það gekk allt á afturfótunum og mér leið ekki vel inni á vellinum. Eftir kúluna var ég nálægt því að gefast upp. Það auðveldasta í stöðunni hefði verið að pakka niður dótinu mínu og fara, grenja svo í nokkra daga og byrja svo upp á nýtt. En til allrar hamingju var Sibba systir hérna hjá mér. Eftir kúluna hélt hún flottustu og bestu hvatningarræðu sem ég hef heyrt á ævinni. Ég fór frá því að vera grenjandi vælukjói haldinn sjálfsvorkun á háu stigi í bandbrjálaðan en brosandi baráttuhund. Þess vegna ætla ég að tileinka Sibbu systir minni þetta brons. Ég hefði einfaldlega ekki getað þetta án hennar. Takk Sibba, þú ert best!

En það eru margir fleiri sem eiga hlut í þessum bronspening og ef ég myndi tíma að brjóta hann niður í mola og senda á alla þá myndi ég gera það, en ég tími því bara ekki :P Mamma og pabbi borguðu náttúrulega undir Sibbu hingað og styðja mig alltaf fram í rauðan dauðann sem og restin af fjölskyldunni, besti vinur minn sendi mig með steina sem geyma kraft úr Snæfellsjökli, Stebbi þjálfari, frjálsíþróttadeild ármanns, allir styrktaraðilarnir og svo þið! Það er magnað að finna fyrir stuðningi ykkar, bæði þegar vel og illa gengur. Takk allir, ég er auðmjúk og þakklát, án ykkar hefði þetta aldrei tekist.

En árangur er ekki endastöð. Nú er bara að vinna sig upp pallinn hægt og rólega með því að taka eitt skref í einu.

Ætla að enda þetta dramantíska og væmna blogg á ljóði eftir Ómar Ragnarson sem mamma laumaði í töskuna mína daginn sem ég hélt hingað út.

Láttu ekki mótlætið buga þig heldur brýna
birtuna má ekki vanta í sálu þína
Ef hart eru leikinn svo þú átt í vök að verjast
vertu ekki dapur, njóttu þess heldur að berjast.

Monday, July 19, 2010

Síðan skein sól

Það er ekki annað hægt að brosa sínu breiðasta núna í sumarblíðunni. Svona allaveg þegar maður getur verið úti. Segi ekki að ég brosi hringinn í dag þegar ég var inni að skúra í steikjandi hitanum. Leið soldið eins og í hot-yoga. Þau sem hafa prufað það vita hvernsu geðslegt það er :S Ef ég kemst einhvertíman inn á þing þá verður það mitt fyrsta verk að leggja fram fraumvarp um bann við þrifum innanhúss þegar hitinn er yfir 15°C. Get ekki ímyndað mér annað en það verði samþykkt með tandurhreinum meirihluta ;)

En til að gera langa sögu stutta þá hefur ekki bara verið eintómt sólskin hér hjá nunnunum. Við nældum okkur í matareitrun, ekki spyrja hvað við borðuðum því það er okkur hulgin ráðgáta. En hvað sem það var þá mæli ég ekki með því. Ég veit ekki hvort það olli mér meiri ógleði matareitrunin sjálf eða að sjá fram á að ég þyrfi að þrýfa upp spýjuna frá helgu út um alla íbúð. Þegar mér var alveg hætt að lítast á blikuna dreif ég hana, og mig, beinustu leið til læknisins. Næstu dagar einkenndust mestu að svefni og almennum leiðindum. Hefði greinilega átt að taka þetta bara með trompi í einn dag eins og Helga. En nú er þetta yfirstaðið, sem betur fer.

Við Soffía brugðum okkur í sölumannsskónna síðasta sunnudag. Vorum með bás í kolaprotinu. Salan gekk mjög vel en þar sem við erum báðar tvær alveg ofboðslega góðhartjaðar þá var það ekki gróðavoninn sem rak okkur áfram heldur frekar von um að einhverjir gætu gert góð kaup hjá okkur og eignast góða og eigulega flík. Það held ég að hafi pottþétt gerst því undir lokin fóru hagsýnar húsmæður frá okkur með fullt fangið að fötum fyrri slikk ;) En það voru alveg ótrúlegustu skrípaklæði sem við gátum sellt, greinilegt að smekkur manna er misjafn og ekkert nema gott um það að segja.

Sibba sys kom til landsins núna um miðjan mánuðinn og verður út ágúst. Hún er ekki fyrr komin heim til að njóta íslenska sumarsins en hún fer út aftur, nú til Kanada með Helgu á HM 19 ára og yngir. Ég skilin eftir hér heima :/

Léttog laggott í þetta skiptið. Aldrei að vita nema að einvherjar fréttir komi frá Kanada, veit allaveg að ferðalagið byrjaði ansi skrautlega.

Njótið nú góða veðursins meðan það er þar að segja þið sem eruð í blíðviðrinu þið hin finnið bara eitthvað annað til að gleðjast yfir á nógu er nú að taka.
GG ;)

Saturday, July 17, 2010

Vinsamlegast takið eftir !!

Á morgun, sunnudaginn 18. júlí, munu Gróa og Soffía, með diggri hjálp Helgu ,vera með bás í kolaportinu. Þetta er eitthvað sem enginn vill, getur né má missa af. Því ættu allir að mæta á morgun og gera kaup lífs síns. Þeir sem hafa önnur plön hafa núna góðan klukkutíma til að breyta þeim.

Til sölu verður einungis hágæða vara: kjólar, bolir, bils, veski, skór og margt fleira. Sjón er sögu ríkari.
Frábært verð.
Hvað er betra en eiga góðan sunnudag í kolaportinu ???
Sjáumst hress og kát :)
(Við vorum búnar að taka myndir til að sína brot af því sem verður á borðunum en blessuð myndavélin varð batteríslaus og hleðslutækið virkar ekki. Svo fólk verður að mæta á svæðið og sjá dýrðina)

Monday, July 5, 2010

Tilkynningaskyldan

Ákaflega langt síðan ég hef skrifað hingað inn. Gógó hefur samt staðið sig ágætlega og komið í veg fyrir algjört andleysi þessarar síðu. Ég verð þó að viðurkenna að ég tapaði þræðinum að minnsta kosti fimm ef ekki sex sinnum í byrjun síðustu færslu. Held ég sé bara hreinlega lesblind þegar kemur að svona listrænum, háfleygum og gildishlöðnum tilfinningaorðum.

Af mér er allt hið ágætasta að frétta. Fyrstu þrautinni lokið og mikið ákaflega var gott að komast í gegnum hana. Það gekk þó ekki alveg stórslysalaust fyrir sig því fjórar af sjö greinum voru hreint út sagt alveg skelfilegar svo ekki sé meira sagt. En það þýðir nú lítið að velta sér upp úr því núna og ég get allt eins sagt að þrjár af sjö greinum hafi verið mjög ásættanlegar sem og stigaskorið í heildina. Alltaf að einblína á það jákvæða sjáið til :) Ferðin til Ísrael var annars mjög skemmtileg og vel heppnuð. Ég kom heim í tvo daga og stökk svo aftur út til Gautaborgar og renndi í gegnum þær greinar sem gengu verst í þrautinni og þær gengu allavegana mun betur í þetta skipti og frískleikinn aðeins meiri :) Þetta kemur allt með kaldavatninu svo lengi sem afslöppunin og þolinmæðin er fyrir hendi :)

Svo styttist heldur betur í Kanada og Barcelona. Finnst alveg frábært hvað íslenskt frjálsíþróttafólk er heldur betur að springa út, við erum þrjár að fara á HM unglinga og hvorki meira né minna en sjö að fara á EM í Barcelona. Það er bara frábært og ég hlakka mikið til að fá að taka þátt í þessum mótum :D Það verður bara ævintýri sem ég ætla að njóta til hins ítrasta :)

En yfir í allt annað....
Fluginu mínu til seinkaði um daginn og ég rölti því í Eymundsson á flugvellinum og keypti mér bókina Makalaus eftir Tobbu Marinós. Ég bjóst nú ekki við miklu en taldi þetta vera fína afþreyingu. Það er skemmst frá því að segja að bókin hitti beint í mark hjá mér. Ég hló ófáusinnum upphátt og bara gat ekki lagt hana frá mér og þriggja tíma flug sem yfirleitt líður hægar en biðin eftir jólunum leið bara mjög hratt og það þrátt fyrir að mjög óþolandi smákrakki sæti við hliðiná mér og sæi til þess að ég fengi nú örugglega minn skammt af spörkum í lærið þann daginn
En allavegna bókin vakti svo mikla lukku hjá mér að síðan er ég búin að liggja yfir blogginu hjá rithöfundinum og þar inn á milli er líka að finna mikil gullkorn - Þannig að ef þið hafi ekkert við tíma ykkar að gera þá mæli ég með því að þið skoðið þetta
http://www.dv.is/blogg/verold-tobbu/
Ég tek samt vissa áhættu með að vera að upplýsa um þessa hrifningu mína hérna því ég kem algjörlega upp um bókmennta-"smekk" minn. Hugsa að íslenskufræðingur heimilisins myndi fyrr biðja Sigurjón bróðir um að spila meira og hærra á gítarinn en að lesa svona sora.

En talandi um systkini mín. Þau eru miklir snillingar og ég elska þau öll afar mikið - en sæll hvað þau geta verið miklir röflarar og nöldrarar. Sigurjón og Guðrún há harða baráttu um þann eftirsótta titil "Röflari Reykjafjölskyldunnar", en Stína fylgir þó í humátt á eftir. Í gær lá við að við værum rekin út ef þeim ágæta og siðgóða stað Vegamótum því röflið og tuðið í Grjóna, Gróu og Stínu var orðið það hávært að gestir á nærliggjandi borðum voru farnir að líta okkur hornauga. Og hvað haldið þið að þessi elskulegu systkini hafi verið að rífast um? Jú kæru lesendur, þau voru að rífast um það hver væri mesti röflarinn og tuðarinn! Þau eru einstök en samt svo lík.

Jæja ætli ég láti þetta ekki duga í bili - ætla að skunda á æfingu og planið er að taka neglingar á göddum....sæll hvað það verður gaman :D