Saturday, June 5, 2010

Hinn fullkomni föstudagur


Eins og við höfum áður komið inná þá erum við miklir aðdáendur Fréttablaðsins. Það eru þó ekki fréttir um olílekann í Mexíkóflóa eða sprenghlægilegar fréttir af meirihlutamyndun á húsþaki í Breiðholtinu sem fanga athygli okkar, heldur eru það merkilegri hlutir á borð við fylgitímaritin "Föstudagur" og "Matur". Reyndar lesum við alltaf íþróttafréttirnar, eða þær sem ekki fjalla um fótbolta...sem eru reyndar grátlega fáar.



En semsagt í þessu ágæta fylgitímariti "Föstudagur" eru vel valdir einstaklingar fengnir til þess að lýsa hinum fullkomna föstudegi í fimm liðum. Eins og endra nær setum við systur okkur oft í spor þessarra öfundsverðu viðmælenda blaðsins og birtum afraksturinn hér, enda höfum við ekki hlotið náð fyrir augum blaðamanna á Fréttablaðinu.



Við ákváðum þó að hafa daginn hversdagslegan, raunsæjan og á árinu 2010. Auðvitað myndi Helga vilja setja heimsmet í sjöþraut (en þess ber ekki að vænta á föstudegi þar sem flest þrautarmót enda á sunnudegi) og Gróa myndi ekki fúlsa við einni góðri troðslu í úrslitaleik WNBA...en það verður nú í fyrsta lagi á næsta ári.



1) Vöknum snemma og skellum okkur í hlaupagallann. Tökum hroðalega interval-æfingu sem endar með ógleði og lítilli lífslöngun. Mjólkursýran vellur út um eyrun og jörðin tekur að snúast á ótrúlegum hraða um sjálfan sig, og þar af leiðandi verður erfitt að standa í lappirnar. En það er sama, það jafnast ekkert á við að byrja daginn á vænum skammti af endorfíni, enda forfallnir fíklar þessa ágæta efnis.






2) Þegar hjartað er aftur farið að slá á eðlilegum hraða og sýruflæðið aðeins hægt á sér skellum við okkur í sund, spa og dekur með tilheyrandi nuddi, afslöppun og almennri vellíðan. Ekki væri verra ef veðrið léki við okkur og við gætum tekið dágóða brúnku.



3) Förum á nýju flottu rauðu ítölsku vespunni okkar niður í bæ og fáum okkur einhvern ríkulegan og vel útilátin (nóg af kaffi) bröns á einhverju af þeim hótelum sem enn halda í matseðlinn frá árinu 2007. Við sitjum úti og höldum áfram að sleikja sólina. Þaðan röltum við sem leið liggur í Kolaportið og gerum kostakaup eins og vanalega.




4) Hoppum upp í þyrlu og lendum á löngusléttunni heima í sveit. Niðrí í fjöru er pabbi búinn að sjósetja trylluna og því liggur beinast við að renna eftir fisk í soðið. Okkur til mikillar gleði hittum við þar fyrir systur okkar tvær, Sigurbjörgu og Kristínu sem hafa komið í óvænta heimsókn frá útlandinu. Fjörðurinn er spegilsléttur og fjörðurinn er fullur af fisk. Svo sterk er sólinn að silungurinn kemur meira að segja reyktur upp úr sjónum og tilbúinn ofaná rúgbrauð sem tekið var glóðvolgt upp úr hvernum með í nesti. Mömmu til ómældrar gleði verður tryllan aldrei þessu vant ekki vélarvana úti á miðju bollarhafi og því sleppum við við að synda í land í þetta skipti og björugnarsveitin fær að njóta þessa fagra föstudagskvölds óáreitt.



5) Svo er öllu tjaldað til í glæsilegri grillveislu þar sem að sjálfsögðu verður ekkert annað á boðstólnum en íslenskt lambakjöt og fyrsta flokks meðlæti. Mikil gleði verður ríkjandi meðal fjölskyldumeðlima og hláturinn aldrei langt undan. Nóttin er ung og dagsbirtan nýtt til hins ítrasta, við sitjum og spilum spil langt fram á nótt.


FULLKOMINN DAGUR!


4 comments:

  1. Þegar þessi dagur rennur upp megið þið hringja í mig og bjóða mér með... eftir intervalæfinguna, það heillar mig ekki að byja daginn á sjálfsmorði ;)
    Guðrún Eik

    ReplyDelete
  2. Hvað meinaru Eik, intervalæfingin er náttúrulega aðalmálið þú mættir nú ekki missa af því ;)

    ReplyDelete
  3. gott blogg og góðar myndir :) myndin af pabba og marhnútnum er bara stórkostleg !! knus sibba

    ReplyDelete
  4. Þú eruð krútt !

    Björg

    ReplyDelete