Thursday, September 30, 2010

Það er svo skemmtilegt...

að fara í kolaportið
að elda og borða góðan mat
að vera hrósað
að hrósa og sjá að það gleður!
að spila körfubolta
að vera Íslandsmeistari
að ná markimiði sínu eftir að hafa lagt virkilega hart að sér
að komast heim í sveit eftir að hafa verið of lengi í borgarsvallinu
þegar ég skipti um útvarpsstöð og þá byrjar akkúrat uppáhalds lagið mitt
þegar við nunnunar fíflumst eins og vitleysingar og hlægjum þangað til það líður næstum yfir okkur
þegar ég hef verið að þræta við e-n og kemst svo að því að ég hafði rétt fyrir mér ;)
að setja niður risa þrist á ögurstundu í leik (ætti nú kannski að gera það oftar)
að heimskækja Sibbu og Stínu
þegar Sibba og Stína eru á landinu og öll fjölskyldan er saman
að kaupa nýjan kjól
þegar íbúðin er hrein og fín


Ég gæti haldið svona áfram í allan dag. Stundum þarf maður bara aðeins að minna sig á af hverju það er svo ótrúlega gaman að vera til :)

Njótið dagsins
Gógó :)


Og munið að brosa......






Monday, September 27, 2010

Spurt og svarað

Mörgum finnst nunnurnar æði líkar, sumir meira að segja hafa ekki áttað sig á því að þær eru tvær (t.d. nágrannanir sem halda ítrekað áfram að óska Gróu til hamingju með glæstan árangur og þeir meina ekki á körfuboltavellinum og spyrja út í meiðslin sem engin eru, nema þá kannski geðræn). Sjái maður aðra nunnuna þá er mjög líklegt að hin sé ekki langt undan. En hversu líkar eru þær í raun og veru og hversu vel þekkja þær hvor aðra ?? Nunnunar lögðu nokkrar spurningar fyrir hvor aðra til að komast til botns í þessu.

Helga um Gróu

Hvað er leiðinlegast að gera ?

Henni finnst leiðinlegast af öllu að fást við eitthvað svona tæknilegt dót. Eins og t.d. bara að setja DVD disk í DVD spilarann eða setja eitthvað í samband. Henni finnst líka leiðinlegt að keyra, finnst miklu betra að láta mig keyra og vera á sama tíma í bráðri lífshættu :P

Rétt svar: Erfitt að gera upp á milli þess að reyna að lesa lyriske strukturer og koma lambfénu fyrir í fjárhúsunum í sauðburðinum

Hver er fyndnastur ?

Henni finnst Helga Braga vera fyndnust.

Rétt svar: Ármann Jakobsson. Hver hefði getað hugsað sér að miðaldarbókmenntaáfangi gæti verið svona skemmtilegur.

Til hvers lítur hún mest upp til ?

Ahhh... þessi er svolítið erfið. Gæti giskað á Larry Bird eða Jordan en ég held ég giski samt frekar bara á Marion Jones eða Vala Flosa. Svo gæti það líka bara verið Helena Sverris eða eitthvað. Gróa er ekkert mikið fyrir það að flagga því hverra hún lítur upp til.

Rétt svar : Mömmu og pabba því þau eru alveg ótrúlegir dugnaðarforkar

Uppáhalds bíómyndin ?

Guðrún er mjög léleg þegar kemur að öllu svona bíómynda dæmi því hún hefur eignlega ekki þolinmæði í að hofa á heila mynd. En ég giska samt á Gladiator eða Wimbledon.

Rétt svar: úfff...soldið erfitt, ekki mikil bíómyndamanneskja. Jú Wimbledon er í sérstöku uppáhaldi, sá líka Submarino í gær og hún var ótrúelga góð enda klippti Andri hana ;)

Draumurinn ?

Að komast í Woman NBA. Eftir ferilinn flyst hún svo aftur heim til Íslands og kaupir sér lítið rautt tréhús í miðbænum sem hún fær að innrétta alveg sjálf. Svo byrjar hún með matreiðsluþátt og gefur út fullt af matreiðslubókum og heldur úti matreiðslusíðum og gerir ekki annað en að vesenast í mat.

Rétt svar: Að verða atvinnumanneskja í körfubolta. Hverjum dreymir svo ekki um að vinna vænan lottóvinning og eyða honum aðallega í föt....og mat :)

Hvað í þínu fari helduru að fari mest í taugarnar á Helgu?

Hvað ég tuða ótrúlega mikið um ruslið og draslið í íbúðinni.

Rétt svar: Það fer eiginlega mest í taugarnar á mér að þegar hún fer í sturtu þá skrúfar hún aldrei almennilega fyrir þannig að það dropar alltaf og skvettist fram á gólf. Það fer samt líka í taugarnar á mér hvað hún drekkur mikið kaffi. Núna þegar ég berst við koffín fíkilinn í mér hikar hún ekki við að hlamma sér við hliðin á mér með súkkulaði og möndlukaffi. Ekki mjög vinsælt


Gróa um Helgu

Hvað er leiðinlegast að gera:

Það hlýtur að vera taka til. Engin önnur ástæða gæti verið fyrir því hvað hún gerir það sjaldan.

Rétt svar: Mér finnst fátt leiðinlegra en að þrífa rak í norðan beljanda heima í Hrútó. Mér finnst heldur alls ekki gaman að taka til í eldhúsinu, en ég geri það hvort eð er svo sjaldan að það er ágætis tilbreyting þegar ég tek mig til og geri það :P

Hver er fyndnastur?

Pétur Jóhann Sigfússon, held að hann þurfi varla að opna munninn til að hún spryngi úr hlátri

Rétt svar: Mér finnst Pétur Jóhann Sigfússon vera fyndnastur. Verð reyndar líka að nefna Sigurjón Stóra frænda minn, mér finnst hann alltaf vangefið fyndinn.

Til hvers horfir hún mest upp til ?

Það hlýtr að vera Karolina Kluft og kannski mömmu og pabba líka

Rétt svar: Íþróttalega séð er það Ólafur Stefánsson, það kemst enginn með tærnar þar sem hann hefur hælana, nema þá kannski Karolina Kluft. En ég hef samt alltaf og mun örugglega alltaf líta mest upp til systkina minna.

Uppáhalds Bíómynd ?

Love and basketball hæfileg blanda af íþróttum og ást :P

Rétt svar: Moulin Rouge trónir á toppnum, ást og drama

Draumurinn ?

Að verða ólympíumeistari í sjöþraut

Rétt svar: Að verða ólympíumeistari í sjöþraut. Standa á efsta palli, fá gull um hálsinn, hlusta á þjóðsönginn, tárast og fá gæsahúð. Getur ekkert toppað þetta


Hvað í þínu fari helduru að fari mest í taugarnar á Gógó?

Það hvað ég er gleymin. Hún biður mig um að taka úr þvottavélinni og nokkrum sekúndum síðar er ég búin að steingleyma því. Henni finnst líka pirrandi að ég skil alltaf nýjar og nýjar töskur eftir á ganginum og hvað ég svara spurningum hennar stundum seint.

Rétt svar: Hvernig hún stundum blokkerar sig frá öllu utanaðkomandi, sérstaklega þegar hún er í tölvunni, svo það er ekki nokkur leið að ná sambandi við hana. Hálftíma eftir að ég spyr hana að einhverju þá kemur "ha ???" Og hvað hún er ótrúlega gleymin, síðan hvenær var "ég gleymdi því" afsökun fyrir að gera ekki hlutina ???

Eru þær nokkuð svo líkar ??? Nei ekki svo. Og þær vita sama sem ekkert hvor um aðra, um hvað eru þær eiginlega að tala allan tímann sem þær hanga saman ?

Thursday, September 23, 2010

Keðjuverkun

Ég ætla að byrja þetta blogg (er reynda nú þegar byrjuð en þetta telst ekki með) á að slá fram fullyrðingu með þeim hætti sem var verið að enda við að brýna fyrir okkur íslenskunemunum að ætti alls ekki að gera, já svona er háskólanámið að gera gott mót. Er reyndar komin á þá skoðun að nám sé svo görsmamlega ofmetið að ég er bara að hugsa um að hætta. Mikill meiri hluti af allri vitleysunni sem verið er að troða inn hausinn á okkar lekur jafnharðan út. Svo þetta er ekki til annars en útvega blessuðum kennurunum vinnu. Ég er reyndar ekki viss um að þeim finnist öllum launin ná að bæta upp þær raunir sem þeir þurfa að ganga í gegnum við að reyna fá heildauð nemendurna til líta upp frá facebook og bjóða góðan daginn. En nú er ég komin langt af leið, þaðan sem þessi litli inngnagur átti að leiða mig.

Fólk (já þetta er sem sagt alveg bannað, hvað fólk ? Kínverjar, skúringakonur, dópistar?? ) og þar á meðal ég er oft að bísnast yfir því þegar fjölmiðlar, alþingismenn, tannlæknirinn, Palli á verkstæðinu og bara hver sem er tönglast stanslaust á svona "tískuorðum" einhver orð eða orðasambönd sem henta svona líka vel í uræðunni um ekki neitt og eru því brúkuð í skít. Má nefna t.d. milliliðir, keðjuverkun, skjaldborg heimilanna og fleiri sem ég man ekki núna. Sum þessara orða skil ég ekki einu sinni, ég er ábyggilega ekki ein um að finnast það sem verið er að japla stöðugt á ekki koma mér við. En svo komst ég að því að þessi orð eru ekki bara orðin ein. Hér kem ég með lítið dæmi

Keðjuverkun í Hvassaeleiti

Þegar ég ákvað að nú væri mál að setast á skólabekk fannst mér það alveg ótækt að ég sæti við gamla skrifborðið hennar mömmu sem farið var að líkjast dalmatíuhundi. En þar sem nám og peningaleysi eru tvö órjúfanleg hugtök þá ætlaði ég að gerast hagsýn og fara með borðið niðrí bílskúr og lappa bara upp á það sjálf. Til að gera langa sögu stutta þá er borðið þar enn. Svo nálguðust fyrstu háskólaprófin og ég var ekki með neitt skrifborð. Ég sá það í hendi mér að þetta gæti ekki þýtt neitt annað en fall svo ég fór með móður minni í IKEA og festi kaup á þessu fína skrifborði. En frá því að ég afrekaði að setja borðið upp þá hef ég varla séð það. Ástæðan, jú það henntar svo vel undir öll fötin sem annars lægju á gólfinu og ég fengi bara í bakið að bogra yfir hrúgunni þegar ég væri að leita að eitthverju.



Það hljóta allir að sjá að ég læri nú ekki mikið við þetta borð. Því hefur stofuborðið orðið fyrir valinu og það lítur svona út




Huggulegt ekki satt. Svo er ég þannig að ég get ómögulega bara setið og borðað matinn minn og ekki gert neitt annað í leiðinni. Svo þegar ég er búin að lesa öll blöð, næringarinnihladstöflur, auglýsingar og annað prentað mál sem finnst inni í ehldhúsi og útvarpið gubbar einhverjum leiðindum þá færi ég mig stundum inn í stofu ef ske kynni að sjónvarpið sýndi óvenju skemmtilegar auglýsingar. En þar sem stofuborðið er upptekið þá sest ég á gólfið og set diskinn á sófaborðið, það er nebblega alveg ómögulegt að sitja í sófanum og bogra yfir lágu borðinu......


svona gæti ég haldið áfram lengi en það er margt sem ég ætlaði að koma í verk í dag svo ég læt staðar numið núna. Kem kannski með fleiri útskýringar á svona hávísindalegum hugtökum svo allir ættu að skilja

Njótið helgarinnar
Gógó :)

Monday, September 20, 2010

Skemmtilegt haust

Það er ekki um að villast, það er komið haust og gott betur en það, ef dagatalið lýgur ekki að mér þá er kominn 21. september! Mörgum finnst haustið ekki skemmtilegt, það fer að dimma, rignir út í eitt og allt verður niðurnjörfað eftir frelsi sumarsins. En okkur nunnunum þykir haustið skemmtilegur tími. Haustið er upphaf einvhers nýs og skemmtilegs. Ef það er einvher sem hatar haustið sem enn nennir að lesa þá viljum við gefa þeim nokkur góð ráð til að gera haustið skemmtilegt.

Í haust mæla nunnunar með :



Réttir
Ekkert lifandi mannsbarn ætti að láta réttir fram hjá sér fara (nema þau hafa fyrir því mjög góðar og gildar ástæður auðvitað, sem sagt sibba :P)Hver hefur ekki gaman af því að henda sér út í hasarinn í almenningnum velja sér stærsta lambrhútinn og taka á öllu sínu til að koma honum í réttan dilk. Það jafnast bara ekkert á við réttastemninguna eða hvað þá réttaballið :)



Rólegaheit
Loksins verður aftur leyfilegt að slaka aðeins á eftir ofvirkni sumarins. Þá er tilvalið að taka sér handavinnu í hönd. Hella upp á kaffi og maula á hnetum og þurkuðum ávöxtum. Það er mjög róandi og um leið mjög góð æfing fyrir þolinmæðina þegar þarf að rekja upp ;)



Fótabaðið á fjörunni á Seltjarnarnesi
Í fjöruborðinu á nesinu er ótrúlega skemmtilegt ylvolgt fótabað. Hvort sem maður vill vera einn með sjálfum sér, fylgjast með fuglunum og hlusta á sjáfarniðinn og jafnvel yrkja ljóð eða eyða kvöldstund með ástinni sinni, besta vin/vinkonu, mömmu eða pabba þá verður enginn svikinna af fótabaðinu.Ekki skemmir fyrir að hafa með heitann sopa í hitabrúsa. Svo er líka gaman að dýfa tánum í sjóinn.




Kalt bað
Ef einvherjum dugir ekki að dýfa tánum í sjóinn þá er bara að skella sér í sundfötin og fara alla leið. Skotheld leið fyrir þá sem eru nú þegar helteknir af skólasljófleika og vilja aðeins hirsta upp í heilabúinu. Síðastur út í er hrútspungur :P



Nýtt lambakjöt
Haustið er tími lambakjötsins í allri sinni dýrð. Nýtt lambakjöt, slátur, svið....getur dimmu í dagsljós breytt ;)

Jæja nú ætti engum að leiðast í haust

Friday, September 10, 2010

og meira um mat....

Það ættu allir lesendur þessa bloggs að hafa áttað sig á því hve allt matarkyns er okkur nunnum ofarlega í huga. Ég (GG, held ég geti reyndar talað fyrir Helgu líka í þesum efnum) hugsa vandræðalega mikið um mat. Ég er alveg hand viss um að ég endi sem ráðskona í sveit með svuntuna fasta á mig og fari helst ekki úr eldhúsinu, nema þá til að þrýfa aðra hluta hússins, jú og kannski til að sofa, vona að ég verði aldrei svo heltekin að ég fari að sofa í eldhúsinu.



Ef ekki væri fyrir það hvað það fer illa saman að vera 500 kíló og vera á fullu í íþróttum þá væri ég það pottþétt :P Ég held að ég muni daginn sem hugsanir mínar urðu helteknar af mat, reyndar af mat sem ég ætlaði ekki að borða. Og þegar maður hefur verið í megrun svo lengi sem elstu menn muna (með mjög svo mismikilli ákefði og árangri eftir því en í önnur skipti aðeins og mikið í hina áttina) og þá verða hugsanir, uppskriftir og myndir af yndislegum kræsngum oft að duga. Ég er að vinna að því að koma mér upp góðu safni uppskriftabóka. Ég kem ekki til með að elda nokkuð upp úr mörgum þeirra en það er garanterað að ég mun fletta þeim öllum miklu oftar en nokkurri annari bók sem ég á (í það minnsta eftir að símaskráin kom á netið). Þegar ég fer á bókasafnið til að taka einhverja spennandi bók á við íslenska setningafræði eða hugtök og heiti í bókmenntum þá enda ég alltaf af einvherjum óskiljanlegum ástæðum fyrir framan hilluna með uppskriftabókin ef ske kynni að komin væri ný uppskriftabók eða gestgjafablað sem ég er ekki búin að skoða, því miður er það alltof sjaldan sem svo er enda er ég búin að taka flest blöðin og bækurnar oft. Og svo er það internetið. Þvílíkt magn sem er af matartengdu efni !!! Eins gott að það verði nettenging á sveitabænum sem ég enda á. Ég get svvoooo gleymt mér við að skoða uppskriftir af öllum mögulegum og ómögulegum réttum. Uppáhalds síðan mín er www.lickmyspoon.com aðallega fyrir það að á henni er svo ótrúlega margir linkar á hin ýmsu matarblogg og síður. Held að það komi til með að endast mér ævina að þræða þær allar. Svo skoða ég alltaf þetta blogg hér ótrúlegar hugmyndir sem þessi stelpa fær varðandi eldamensku. Hún er algjör snillingur að gera hollan mat góðan og spennandi svo það verður skemmtilegt að borða hann. Held að það séu flestir sammála mér að það er ekkert ofboðslega gaman að borða soðinn fisk með tómatsósu eða hrátt spergilkál í öll mál. Ég hef t.d. aldrei verið neitt ofboðslega spennt fyrir "boost" ekki af því að það sé ekki hægt gera góðan boost heldur vegna þess að mér finnst frekar leiðinlegt að borða þannig, vil miklu ferkar borða met heldur en drekka'ann. Það er nebblega svo gaman að borða :) Ég hef meiri skilning á stjarneðlisfræði en því þegar fólk vill frekar sofa lengur en að borða morgunmat, hvað er það ?!?!?!? Svo er það Cafe Sigrún. Þar er alveg hellingur af rosa hollum uppskriftum. Verst að ætli maður að fara all leið í hollustunni og lífræna lífstílnum þá þarf maður helst að taka kúlulán til að eiga fyrir hráefni í naglasúpu.


Jeremías ég verð bara svöng af þessum skrifum og ætla nú helst ekki að fara að borða núna klukkan 11 að kvöld, ó þó ;)Gæti líka drifið mig í háttinn og þá er ekki langt að bíða morgunmatarins!

Verði ykkur að góðu
Gógó

Thursday, September 9, 2010

Hið glútenlausa mataræði

Langar aðeins að taka stöðuna á hinu glútenlausa fæði.

Sumsé, búin að vera á glútenlausu, mjólkurlausu, sykurlausu, aukaefnalausu (að mestu), koffínlausu og unnum kjötvörulausu fæði núna í 17 daga. Fyrir þá sem ekki vita í hvaða matvöru glúten fyrirfinnst er það fyrst og fremst öll kornvara, hveiti, spelt, bygg, haframjöl, rúgmjöl og svo ótal margt annað.

Ég hef aðeins verið spurð þeirrar spurningar hvað í ósköpunum ég sé þá að borða og svarið er einfalt, ég er að borða allan uppáhalds matinn minn (já fyrir utan reyndar slátur) og það er lambakjöt, kjúkling (ósprautaðan), fisk, egg, hnetur, fræ, mikið af ávöxtum, enn meira grænmeti, kæfu og ég drekk vatn.

Það hefur gengið vel hingað til þó ég hafi reyndar þurft að byrja upp á nýtt síðastliðinn mánudag, þá hálfnuð með það sem átti að vera 30 daga prufukeyrsla, einfaldlega vegna þess að ég át hangikjöt í réttunum. Eitthvað sem ég hefði svosem alveg átt að vita að var á bannlistanum, en át engu að síður allt of mikið af.

Annars fannst mér ekkert svo erfitt að fara í gegnum réttirnar án þess að hakka í mig óhollustu, þ.e. svo lengi sem maður er skipulagður í þessu. Í hinni árlegu kakó/kaffi og kökupásu frammi í Óspakstaðaseli að rekstri loknum át ég bara mangó, appelsínu, harðfisk og drakk heitt vatn í kakóbolla, þetta er ekki flókið og ég féll alveg ágætlega inní hópinn.
Nestið mitt í göngurnar var heldur ekki af verri endanum, grillað lambakjöt, glútenlaust brauð með kæfu og eggi, soðin egg, harðfiskur og hnetur – skothelt.

Einn helsti munurinn sem ég finn er sá að þegar maður kemur glorhungraður heim úr skólanum og rýkur í ískápinn og ætlar að hakka eitthvað í sig þá stendur það einfaldlega ekki til boða. Ég þarf alltaf að staldra við og hugleiða svolítið hvað það er sem ég ætla að setja ofaní mig og kem þannig í veg fyrir að eitthvað óæskilegt fari inn fyrir mínar varir.

Svo fer maður ekki út að borða. Stína og Franck voru hér í síðustu viku og ég sat heima þegar þau ásamt Sigurjóni fóru á Hamborgarafabrikkuna en ég fór með þeim á Vegamót. Þar fékk ég mér heilsulax, grillaðan með grænmeti, en sleppti sósunni og speltpastanu. Á meðan ég beið eftir matnum hugsaði ég „Jájá ef þetta verður eitthvað þurrt þá fæ ég mér bara tómatsósu með“ en æjæj, tómatsósa er ekki í lagi.

Ég sá mér leik á borði á mánudaginn og keypti mér heilsugrill og hef notað það tvisvar sinnum núna. Í annað skiptið grillaði ég lambakjöt (en ekki hvað) og í hitt skiptið lax. Grillaði reyndar líka grænmeti með og úr þessu var hinn mesti herramanns matur. Guðrún er held ég allaveganna alveg stóránægð með þessa nýbreytni mína að láta til mín taka í eldhúsinu (já eða svo lengi sem við fáum ekki matareitrun).

Svo er það bara nestisboxið. Ég er t.d. að fara í matarklúbb í kvöld þar sem elda á lasagne og mér dettur ekki hug að mæta ekki bara af því að ég get ekki borðað það. Ég mæti bara með lambakjöt í nestisboxi og það sama mun ég væntanlega gera á lokahófi frjálsíþróttamanna á laugardaginn. Sumum finnst þetta ef til vill mjög hallærislegt en mér finnst þetta frábært. Ég elska að takast á við þetta

Lifið heil