Thursday, May 27, 2010

Frá geðdeildinni

Vil bara aðeins láta heyra frá mér. Er enn hér á mörkum hins byggilega heims þar sem norðangarrinn vinnur ötullega að því að má út það litla líf sem hér þrífst. Inn á milli birtist sólarglæta og vekur von í brjóstum manna en eins og hendi væri veifað er hún hrifsuð í burtu og send til fyrirheitna landsins fyrir sunnan holtavörðuheiðina. Nei....svo slæmt er þetta nú kannski ekki en djöfull getur samt orðið kalt hérna þó það eigi að heita að vorið sé á blússandi siglingu og sumarið í nánd. Lítið tillit tekið til þess hér. Ég var ötul við skrifin hérn fyrr í sauðbruðinum en hefur heldur dregið úr þegar á hann hefur liðið. Úr því má lesa um gang sauðburðarins og hvernig hann legst á undirritaða. Í fyrstu er hann sem leikur einn, vorboði og lömbin vekja hjá manni gleði og von um betri tíð með blóm í haga eins og ungdómurinn gerir títt. En svo verða þau fleiri og fleiri og ennþá fleiri og fleiri en flestir geta ímyndað sér. Og ekki skánar veðrið og versnar ef eitthvað er. Brúnin tekur að þyngjast, bakið að bogna og fæturnar dregnar eftir jörðinni. En svo loksins.....eftir eins og eitt, tvö æðisköst, margar háðar þrjóskukeppnir við ærnarog margar vökunæturnar sér fyrri endan á þessu. Þá réttir fólk aftur úr bakinu, fer aftur dásemdar orðum um sauðkindina, knúsa ltilu lömbin og aftur taka bloggin að birtast hér. Fátt vekur hjám heimilisfólkinu jafn miklu lukku eins og þegar eitt og eitt ónýtt skúmaskot kemur í ljós í húsunum og ekki þarf lengur að koma blessuðum nýbökuðum mæðrunum fyrir til bráðabirgða út í horni heldur hægt að fara með þær beinustu leið í svítuna.

Já svona hefur þetta nú gengið, meðan á því stendur alveg bölvanlega en það er nú fljótt að gleymast. Það myndi náttúrulega enginn heilvita maður standa í þessu ef ekki væri fyrir það hvað lambakjötið er ofboðslega gott á bragðið ;)

Læt þetta duga í bili og ef guð lofar þá verð ég farin að skrifa um eitthvað annað en sauðburin von bráðar ;)
Bið ykkur vel að lifa
Gógó

5 comments:

  1. Já þetta var skemmtileg færsla systir góð og einkar vel skrifuð
    Hlakka til að fá þig á morgun :)
    Helga

    ReplyDelete
  2. Stelpur það þyrfti kannski að breyta textanum úr hvítu í svörtu, það sést svo illa :S

    ReplyDelete
  3. Hér áður fyrr kannaðist ég ekkert við þessa tilfinningu, enda fátt fé á Tab og sauðburður því aðeins til yndisauka. Hér í Hafrafellstungu erum við þó búin að merkja út eitthvað tæplega þúsund lömb (þessi tæpu 300 sem fæðast á Tab eru sem dropi í hafið miðað við þann fjölda) og þreytan var sko farin að segja til sín fyrir viku síðan. Ég var svo "lánsöm" að detta og rifbeinsbrjóta mig þannig að ég get ekki gert neitt gagn lengur og svoleiðis verður það næstu vikur. Trúðu mér, sama hversu þreyttur maður er orðinn og langeygur eftir síðustu rollunni þá er það mun skárra en að vita að nóg er að gera og geta ekkert gert til gagns og hagræðingar!!!
    Kveðja úr snjókomunni í Öxarfirðinum, Eyrún:)

    ReplyDelete
  4. óoo mér sýndist yfirskriftin vera "frá gleðideildinni"!!!!

    ReplyDelete