Monday, July 5, 2010

Tilkynningaskyldan

Ákaflega langt síðan ég hef skrifað hingað inn. Gógó hefur samt staðið sig ágætlega og komið í veg fyrir algjört andleysi þessarar síðu. Ég verð þó að viðurkenna að ég tapaði þræðinum að minnsta kosti fimm ef ekki sex sinnum í byrjun síðustu færslu. Held ég sé bara hreinlega lesblind þegar kemur að svona listrænum, háfleygum og gildishlöðnum tilfinningaorðum.

Af mér er allt hið ágætasta að frétta. Fyrstu þrautinni lokið og mikið ákaflega var gott að komast í gegnum hana. Það gekk þó ekki alveg stórslysalaust fyrir sig því fjórar af sjö greinum voru hreint út sagt alveg skelfilegar svo ekki sé meira sagt. En það þýðir nú lítið að velta sér upp úr því núna og ég get allt eins sagt að þrjár af sjö greinum hafi verið mjög ásættanlegar sem og stigaskorið í heildina. Alltaf að einblína á það jákvæða sjáið til :) Ferðin til Ísrael var annars mjög skemmtileg og vel heppnuð. Ég kom heim í tvo daga og stökk svo aftur út til Gautaborgar og renndi í gegnum þær greinar sem gengu verst í þrautinni og þær gengu allavegana mun betur í þetta skipti og frískleikinn aðeins meiri :) Þetta kemur allt með kaldavatninu svo lengi sem afslöppunin og þolinmæðin er fyrir hendi :)

Svo styttist heldur betur í Kanada og Barcelona. Finnst alveg frábært hvað íslenskt frjálsíþróttafólk er heldur betur að springa út, við erum þrjár að fara á HM unglinga og hvorki meira né minna en sjö að fara á EM í Barcelona. Það er bara frábært og ég hlakka mikið til að fá að taka þátt í þessum mótum :D Það verður bara ævintýri sem ég ætla að njóta til hins ítrasta :)

En yfir í allt annað....
Fluginu mínu til seinkaði um daginn og ég rölti því í Eymundsson á flugvellinum og keypti mér bókina Makalaus eftir Tobbu Marinós. Ég bjóst nú ekki við miklu en taldi þetta vera fína afþreyingu. Það er skemmst frá því að segja að bókin hitti beint í mark hjá mér. Ég hló ófáusinnum upphátt og bara gat ekki lagt hana frá mér og þriggja tíma flug sem yfirleitt líður hægar en biðin eftir jólunum leið bara mjög hratt og það þrátt fyrir að mjög óþolandi smákrakki sæti við hliðiná mér og sæi til þess að ég fengi nú örugglega minn skammt af spörkum í lærið þann daginn
En allavegna bókin vakti svo mikla lukku hjá mér að síðan er ég búin að liggja yfir blogginu hjá rithöfundinum og þar inn á milli er líka að finna mikil gullkorn - Þannig að ef þið hafi ekkert við tíma ykkar að gera þá mæli ég með því að þið skoðið þetta
http://www.dv.is/blogg/verold-tobbu/
Ég tek samt vissa áhættu með að vera að upplýsa um þessa hrifningu mína hérna því ég kem algjörlega upp um bókmennta-"smekk" minn. Hugsa að íslenskufræðingur heimilisins myndi fyrr biðja Sigurjón bróðir um að spila meira og hærra á gítarinn en að lesa svona sora.

En talandi um systkini mín. Þau eru miklir snillingar og ég elska þau öll afar mikið - en sæll hvað þau geta verið miklir röflarar og nöldrarar. Sigurjón og Guðrún há harða baráttu um þann eftirsótta titil "Röflari Reykjafjölskyldunnar", en Stína fylgir þó í humátt á eftir. Í gær lá við að við værum rekin út ef þeim ágæta og siðgóða stað Vegamótum því röflið og tuðið í Grjóna, Gróu og Stínu var orðið það hávært að gestir á nærliggjandi borðum voru farnir að líta okkur hornauga. Og hvað haldið þið að þessi elskulegu systkini hafi verið að rífast um? Jú kæru lesendur, þau voru að rífast um það hver væri mesti röflarinn og tuðarinn! Þau eru einstök en samt svo lík.

Jæja ætli ég láti þetta ekki duga í bili - ætla að skunda á æfingu og planið er að taka neglingar á göddum....sæll hvað það verður gaman :D

5 comments:

  1. Helga og af hverju ættir þú að tuða? Ferð til útlandi 10 sinnum á ári, ert varla að vinna og þarft ekki nema í neyðartilfellum að þrýfa og elda.
    GG

    ReplyDelete
  2. I think we have a winner!!!
    Stina

    ReplyDelete
  3. Bwahahahah!! Satt Stína
    Helga

    ReplyDelete
  4. Hahahaha...já það er satt Stína. Gróa gerði endanlega út um keppnina með þessu kommenti sínu!
    Helga

    ReplyDelete
  5. Já stína þú sagði það sjálf að ég þyrfti alltaf að vera að keppa og ekki fér ég að tapa fyrir þér. Held samt að ég verði greinilega að kynna mér betru skilgreiningu "tuðs"´fyrir svona keppni
    GG

    ReplyDelete