Friday, July 23, 2010

Brons á heimsmeistaramóti unglinga!

Ég veit ekki hversu skynsamlegt það er að skrifa hingað inn akkúrat núna, nokkrum klukkutímum eftir að ég klára 800 metra hlaup og næ að tryggja mér bronsið á heimsmeistaramóti. En tilfinningin er bara svo stórkostleg og mig langar til að varðveita hana og hví ekki að deila henni með ykkur hérna á bloggsíðunni.

Fyrir ári síðan, nokkrum mínútum eftir að ég tognaði í langstökkinu eftir að hafa verið í forystu í þrautinni á Evrópumeistaramótinu, setti ég mér það markmið að verða heimsmeistari 19 ára og yngir ári seinna, semsagt núna í ár. Því miður náði ég ekki því markmiði mínu, en þannig er nú bara lífið. En þegar ég hugsa lengra til baka - þegar ég var bara smábarn á vellinum heima að kasta bolta og gera háar hnélyftur - dreymdi mig um að komast einhvern daginn á heimsmeistaramót og keppa við þær bestu. Í þá daga datt mér ekki einu sinni í hug að láta mér dreyma um að fara á verðlaunapall á stórmóti. Á morgun mun sá draumur engu að síður rætast. Ég fæ að stíga upp á verðlaunapall á heimsmeistaramóti, fá pening um hálsinn og sjá íslenska fánann fara upp. Það verður örugglega mögnuð tilfinning og þessi verðlaun verða aldrei tekin af mér. Ég mun eiga þennan bronspening um ókomna tíð og það er gott að hugsa til þess.

Síðustu tveir dagar eru líklega tveir erfiðustu dagar sem ég hef gengið í gegnum. Það gekk allt á afturfótunum og mér leið ekki vel inni á vellinum. Eftir kúluna var ég nálægt því að gefast upp. Það auðveldasta í stöðunni hefði verið að pakka niður dótinu mínu og fara, grenja svo í nokkra daga og byrja svo upp á nýtt. En til allrar hamingju var Sibba systir hérna hjá mér. Eftir kúluna hélt hún flottustu og bestu hvatningarræðu sem ég hef heyrt á ævinni. Ég fór frá því að vera grenjandi vælukjói haldinn sjálfsvorkun á háu stigi í bandbrjálaðan en brosandi baráttuhund. Þess vegna ætla ég að tileinka Sibbu systir minni þetta brons. Ég hefði einfaldlega ekki getað þetta án hennar. Takk Sibba, þú ert best!

En það eru margir fleiri sem eiga hlut í þessum bronspening og ef ég myndi tíma að brjóta hann niður í mola og senda á alla þá myndi ég gera það, en ég tími því bara ekki :P Mamma og pabbi borguðu náttúrulega undir Sibbu hingað og styðja mig alltaf fram í rauðan dauðann sem og restin af fjölskyldunni, besti vinur minn sendi mig með steina sem geyma kraft úr Snæfellsjökli, Stebbi þjálfari, frjálsíþróttadeild ármanns, allir styrktaraðilarnir og svo þið! Það er magnað að finna fyrir stuðningi ykkar, bæði þegar vel og illa gengur. Takk allir, ég er auðmjúk og þakklát, án ykkar hefði þetta aldrei tekist.

En árangur er ekki endastöð. Nú er bara að vinna sig upp pallinn hægt og rólega með því að taka eitt skref í einu.

Ætla að enda þetta dramantíska og væmna blogg á ljóði eftir Ómar Ragnarson sem mamma laumaði í töskuna mína daginn sem ég hélt hingað út.

Láttu ekki mótlætið buga þig heldur brýna
birtuna má ekki vanta í sálu þína
Ef hart eru leikinn svo þú átt í vök að verjast
vertu ekki dapur, njóttu þess heldur að berjast.

2 comments:

  1. Þú ert æði !! :-)

    ReplyDelete
  2. Elsku Helga.
    Innilega til hamingju með þetta stórkostlega
    afrek, þú ert eistök :)Biðjum að heilsa Sibbu systir!

    Kveðja frá Efri-Reykjum.

    ReplyDelete