Thursday, September 9, 2010

Hið glútenlausa mataræði

Langar aðeins að taka stöðuna á hinu glútenlausa fæði.

Sumsé, búin að vera á glútenlausu, mjólkurlausu, sykurlausu, aukaefnalausu (að mestu), koffínlausu og unnum kjötvörulausu fæði núna í 17 daga. Fyrir þá sem ekki vita í hvaða matvöru glúten fyrirfinnst er það fyrst og fremst öll kornvara, hveiti, spelt, bygg, haframjöl, rúgmjöl og svo ótal margt annað.

Ég hef aðeins verið spurð þeirrar spurningar hvað í ósköpunum ég sé þá að borða og svarið er einfalt, ég er að borða allan uppáhalds matinn minn (já fyrir utan reyndar slátur) og það er lambakjöt, kjúkling (ósprautaðan), fisk, egg, hnetur, fræ, mikið af ávöxtum, enn meira grænmeti, kæfu og ég drekk vatn.

Það hefur gengið vel hingað til þó ég hafi reyndar þurft að byrja upp á nýtt síðastliðinn mánudag, þá hálfnuð með það sem átti að vera 30 daga prufukeyrsla, einfaldlega vegna þess að ég át hangikjöt í réttunum. Eitthvað sem ég hefði svosem alveg átt að vita að var á bannlistanum, en át engu að síður allt of mikið af.

Annars fannst mér ekkert svo erfitt að fara í gegnum réttirnar án þess að hakka í mig óhollustu, þ.e. svo lengi sem maður er skipulagður í þessu. Í hinni árlegu kakó/kaffi og kökupásu frammi í Óspakstaðaseli að rekstri loknum át ég bara mangó, appelsínu, harðfisk og drakk heitt vatn í kakóbolla, þetta er ekki flókið og ég féll alveg ágætlega inní hópinn.
Nestið mitt í göngurnar var heldur ekki af verri endanum, grillað lambakjöt, glútenlaust brauð með kæfu og eggi, soðin egg, harðfiskur og hnetur – skothelt.

Einn helsti munurinn sem ég finn er sá að þegar maður kemur glorhungraður heim úr skólanum og rýkur í ískápinn og ætlar að hakka eitthvað í sig þá stendur það einfaldlega ekki til boða. Ég þarf alltaf að staldra við og hugleiða svolítið hvað það er sem ég ætla að setja ofaní mig og kem þannig í veg fyrir að eitthvað óæskilegt fari inn fyrir mínar varir.

Svo fer maður ekki út að borða. Stína og Franck voru hér í síðustu viku og ég sat heima þegar þau ásamt Sigurjóni fóru á Hamborgarafabrikkuna en ég fór með þeim á Vegamót. Þar fékk ég mér heilsulax, grillaðan með grænmeti, en sleppti sósunni og speltpastanu. Á meðan ég beið eftir matnum hugsaði ég „Jájá ef þetta verður eitthvað þurrt þá fæ ég mér bara tómatsósu með“ en æjæj, tómatsósa er ekki í lagi.

Ég sá mér leik á borði á mánudaginn og keypti mér heilsugrill og hef notað það tvisvar sinnum núna. Í annað skiptið grillaði ég lambakjöt (en ekki hvað) og í hitt skiptið lax. Grillaði reyndar líka grænmeti með og úr þessu var hinn mesti herramanns matur. Guðrún er held ég allaveganna alveg stóránægð með þessa nýbreytni mína að láta til mín taka í eldhúsinu (já eða svo lengi sem við fáum ekki matareitrun).

Svo er það bara nestisboxið. Ég er t.d. að fara í matarklúbb í kvöld þar sem elda á lasagne og mér dettur ekki hug að mæta ekki bara af því að ég get ekki borðað það. Ég mæti bara með lambakjöt í nestisboxi og það sama mun ég væntanlega gera á lokahófi frjálsíþróttamanna á laugardaginn. Sumum finnst þetta ef til vill mjög hallærislegt en mér finnst þetta frábært. Ég elska að takast á við þetta

Lifið heil

4 comments:

  1. Já Helga þú ert mögnuð:) Ég tek ofan af fyrir þér að standa í þessu og þá sérstaklega á þessum árstíma:)

    ReplyDelete
  2. Gott mál. Má ég spurja ástæðuna fyrir öllum látunum hjá þér? Varstu greind með glúteinóþol eða ertu að leita af einhverju ákv.óþoli?
    Er sjálfur reglulega í einhverjum matarpælingum, er einmitt núna að kötta mikið út mjólkurvörur þessa dagana.

    kv.Gaui, frjálsar.

    ReplyDelete
  3. Sæll Gaui
    Aðal ástæðan fyrir þessu er sú að mig langaði að breyta rækilega til og tók matarræðið því bara í gegn í leiðinni. Gummi Hólmar prófaði þetta síðasta vetur og var bara eins og nýr maður eftirá og á meðan, þannig að ég tók hann bara á orðinu og skellti mér í þetta líka :)
    Það má kannski segja að maður sé að leita eftir einhverju vissu óþoli því eftir þessa áætluðu 30 daga á maður að prófa aftur að setja inn t.d. mjólkurvörur og ef maður finnur þá mun á sér, t.d. fær illt í magann eða þembu þá ætti maður líklega bara að halda sig fjarri mjólkurvörum í miklu magni
    Ég veit ekkert hvað er til í þessu, en mér finnst ekki saka að prófa :) Maður kemst aldrei að neinu nema að maður prófi sig áfram

    ReplyDelete
  4. En sinnep, er thad i lagi?? Nautasteik med dijon sinnepi er nefnilega svo gott njamm njamm.
    Stina

    ReplyDelete