Wednesday, October 6, 2010

Hrós

Það mætti halda að þetta blogg okkar systra væri orðið einhverskonar sjálfshjálpar-blogg. Í síðustu færslu reyndi Gróa að kenna ykkur að njóta lífsins. Það getur hjálpað svo mikið ef maður reynir að koma auga á það sem er skemmtilegt en er ekki sífellt að pirra sig eða svekkja sig á öllu því leiðinlega sem við þurfum að gera. Þannig að Gróa fær klárlega prik fyrir síðustu færslu.

En nú ætla ég að tala um hrós. Ég hef oft reynt að taka mig á í því að hrósa fólki, og kannski ekki síst fólki sem ég þekki lítið eða ekkert. En ég hef líka rekið mig á að það að hrósa einhverjum er bara miklu erfiðara en að segja það, eða réttara sagt, maður gelymir því alltof oft. T.d. þegar maður sér konu í gasalega smekklegri kápu og maður hugsar inni í sér "Vá hvað þetta er einstaklega klæðileg flík" en afhverju hugsar maður það bara inní sér? Er ekki miklu betra að segja það bara upphátt við þessa smekkskonu. Hver veit nema að konan hafi verið nýbúin að kaupa sér kápuna án þess að hafa efni á því og ef til vill með samviskubit yfir því, en með hrósinu myndi þetta samviskubit klárlega hverfa eins og dögg fyrir sólu. Ég þekki það mjög vel af eigin raun hvað eitt lítið hrós getur gert mikið fyrir mann. Í morgun t.d. var ég að taka erfiða hlaupaæfingu. Eftir einn sprettin skakklappast ég hokin til baka þegar ein kona sem gekk framhjá stoppaði og sagði "Þú ert alveg frábær!" og svo hélt hún bara áfram að labba, ekki flókið fyrir hana. En þetta hrós gerði hinsvegar gæfumunin fyrir mig, ég rétti úr bakinu og mér fannst ég alveg frábær. Ég var full sjálfstrausts, fílaði mig ótrúlega vel og æfingin gekk eins og í sögu. Ég var svo heppin að þetta var snemma dags og því fyldi þessi gleðitilfinning mér allan daginn og dagurinn var fyrir vikið alveg frábær :)

Í gær var ég líka í heitapottinum og er að spjalla við gott fólk um íþróttirnar og fleira. Seinna þegar ég er farin í annan pott kemur ein konan úr pottinum til mín og vill fá að biðja mér blessunnar, að ég megi ná þangað sem ég ætli mér og að guð muni vernda mig á leiðinni. Svolítið sérstök upplifun en ég kunni virkilega vel að meta hana. Svo óskaði hún mér góðs gengis og gekk á braut. Yndisleg kona sem að kann að gefa af sér.


Það er nefnilega þetta með að gefa af sér! Þeim mun meira sem við gefum af okkur, þeim mun meira "feedback" fáum við. Bara það að brosa til náungans og reyna að gefa frá sér jákvæða orku gerir að verkum að smám saman fáum við sífellt fleiri bros til baka og í kringum okkur verður ekkert nema jákvæðni og gott andrúmsloft.
Náungakærleikurinn er svo mikilvægur. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum ekki ein í heiminum heldur snýst lífið að miklu leiti um samskipti okkar og samvinnu við annað fólk. Ef við berum umhyggju fyrir náunganum þá fáum við það til baka. Um daginn sat ég á kaffihúsi þegar ég tek eftir því að konan á næsta borði stekkur upp og hleypur út á götu. Hún stoppar hjá blindri konu sem er greinilega villt. Hún spjallar við hana, hjálpar henni yfir götuna og vísar henni veginn. Svo kemur hún bara aftur inn og heldur áfram að drekka kaffið sitt. Með þessu hjálpaði hún ekki bara gömlu konunni heldur leið henni sjálfri örugglega betur fyrir vikið og það sem meira er, mér leið miklu betur við að sjá hversu umhyggjusöm og góð kona þetta var, að það eru til hversdagshetjur út um allt! Tökum þær okkur til fyrirmyndar.


Þannig að ef þú hefur færi á að hrósa eða hjálpa einhverjum, gerðu það þá! Hver veit nema að þú bjargir deginum fyrir viðkomandi. Allavegana skaltu byrja á því að brosa, það er svo miklu skemmtilegra :)


4 comments:

  1. Virkilega virkilega góður punktur!! og mjög skemmtilega skrifað Helga ;)

    ReplyDelete
  2. Frábært blogg, og svo satt að ef maður gefur frá sér eitthvað jákvætt og gott fær maður það til baka með vöxtum :-)
    Alltaf gaman að lesa pistlana ykkar!
    Matta, Þóroddsst.

    ReplyDelete
  3. Magnað blogg hjá þér systa, er alveg hjartanelga sammála þér. Hrós er aljört undarfyrirbæri. Mér hefur sjaldan verið jafn ánægð með mig eins og þegar Ellý Ármans sagði við mig hvað ég væri flott í ræktinni um daginn :D Orð eru dýr svo það er eins gott að nýta þau vel ;)

    ReplyDelete
  4. Líklega tilvalið tækifæri hér að hrósa ykkur systrum fyrir þetta blogg! Þið eruð líka æði í alla staði og standið ykkur í öllu sem þið takið ykkur fyrir hendur (öllu sem maður veit af a.m.k ;) )

    -Októvía :)

    ReplyDelete