Saturday, October 23, 2010

Meira frá Vaxjö!

Sit inni á huggulega hótelherberginu mínu í Vaxjö, horfi á Federer spila við Ljubicic á Stokkhólm open í tennis, maula íslenskan harðfisk og drekk sódavatn úr vélinni sem er staðsett frami á gangi. Mycket bra!

Það var bara ein nokkuð löng og erfið æfing í dag. Byrjuðum á að hita upp í fótbolta og það var gaman. Krakkarnir í hópnum hérna eru semsagt nokkrar þrautarstelpur og svo slatti af spretthlaupurum og grindarhlaupurum sem Tobias, spretthlaupsþjálfari og aðstoðarþjálfarinn hans Agne sér um. Hérna er gert ofboðslega mikið af svona coordination æfingum með grindum og allskyns svoleiðis, eitthvað sem ég veit að ég hef mjög gott af og finnst líka gaman að gera. Eftir þær var hraða-tíðni sprettir og svo grindahlaupsæfing. Hún gekk ágætlega en engu að síður margt sem þarf að vinna í. Að henni lokinni hljóp ég svo 3x(100-200-300-200-100) með 100 metra labbi á milli spretta og 5 mín á milli setta. Það gekk alveg oboðslega vel og gaman að hlaupa með stelpunum, önnur þeirra er 400 metra grindahlaupari en hin er í stuttu grindinni. Það er svo gaman og gott að ganga vel á æfingu, vera sáttur við sjálfan sig og líða vel, enda byggist þetta allt á því - að líða vel og vera ánægður í eigin skinni :)

Eftir æfingu var matur og svo fundur með Védda, Agne og Gumma. Við fórum yfir stöðuna og ræddum þá þætti sem við ætlum að hafa að leiðarljósi og ákváðum ýmis skipulagsatriði. Það sem ég veit að verður mér erfiðast í þessu er að taka skynsamlegar ákvarðanir og ekki taka prógramminu sem heilögu plaggi sem alls ekki má hnika til og breyta eftir því sem þarf og er nauðsynlegt. Þetta snýst allt um skynsemi og ég ein veit hvernig líkaminn er á sig kominn og hvað hann þolir. Ég hlakka til að takast á við þá áskorun að læra að hlusta á líkamann minn og að halda aftur af sjálfri mér þegar þess þarf. Áskorun sem ég ætla að standast :)

Eftir fundinn röllti ég pínu um bæinn hérna og keypti mér leggings og peysu, þannig að eins og þið sjáið er þetta búinn að vera alveg hreint prýðilegur dagur hjá mér :)
Í kvöld erum við svo að fara í mat heim til Agne og fjölskyldunnar hans, og þangað koma líka Véddi og co. Í gærkvöldi buðu Véddi og Anna okkur í mat og það var gott og gaman. Vésteinn er náttúrulega með einhvern mest motivational lyftingarklefa í heimi í bílskúrnum hjá sér!

En jæja ég ætla að láta þetta duga í bili, best að kíkja smá í námsbækurnar áður en við förum í mat. Á morgun eru tvær æfingar, hástökk fyrripartinn og kúla seinnipartinn. Á mánudaginn förum við svo til Stokkhólms og hittum lækni sem sérhæfir sig í hammeiðslum, og svo förum við bara heim snemma á þriðjudaginn.

Þetta er búið að vera ævintýri og það er rétt að byrja :)

P.s. verðið líka að lesa bloggið hennar Gróu hérna að neðan.....(sorry að ég bloggaði yfir þig Gróa mín)

No comments:

Post a Comment