Sunday, August 29, 2010

Minningar

Eins og glöggir lesendur þessa bloggs hafa tekið eftir er Helga mjög minningavæmin. Henni finnst ekkert skemmtilegra en að rifja upp gamla tíma og stundum eru þeir meira að segja ekki mjög gamlir. Um daginn sagði hún „Gróa, manstu kjúklinginn?“ og Guðrún var dágóða stund að hugsa sig um en kveikti alls ekki á perunni þar sem Helga minnist oftast einhvers úr æsku okkar heima úr Hrútafirðinum, en þar var kjúklingur álíka sjaldséður og djöfullinn. En eini kjúklingurinn sem henni kom þó til hugar var sá sem við systur höfðum sporðrennt tæpu korteri áður, og viti menn, það var kjúklingurinn! Hann var ekki fyrir neinar sakir minnisverður, nema kannski að hann var glútenlaus, ósprautaður og með skinninu sem er heldur fátítt í Hvassaleitinu. En engu að síður fannst Helgu þetta dýrmæt minning því hin síðasta kvöldmáltíð gerir sjaldnast boð á undan sér.
En já minningarnar eru það dýrmætasta sem við eigum (mælir Helga) og því finnst okkur ekki úr vegi að deila með ykkur nokkrum hlutum sem vekja upp hjá okkur misskemmtilegar minningar.


Karamellusúrmjólk frá KS: Þið munið öll eftir henni, þessi í brúnu fernunni, dísæt og þykk. Hún minnir okkur á tvennt. Annarsvegar á mikla gleði Guðrúnar þegar Helga var veik (sem var mjög oft) því þá var splæst í eina fernu og Guðrún sá til þess að henni yrði skipt í réttum hlutföllum við þyngd, stærð og aldur. Þess ber að geta að sú skipting er ekki lengur viðhöfð, nú er einungis skipt miðað við aldur. Súrmjólkin minnir Helgu á þau ófáu sumarfrí sem farin voru vítt og breytt um landið. Þá leyndist hún iðulega í fagurgræna kæliboxinu.


Vel klesst rúgbrauðssamloka með mysing, mjólk í plastflösku og mjólkursúkkulaði með hnetum og rúsínum í eftirmat: Þetta óborganlega kombó er aðeins leyfilegt í göngunum og minnir okkur því að sjálfsögðu á þær, enda eina ástæðan fyrir því að við látum plata okkur í þá svaðilför ár eftir ár.


Klósetthreinsir með sítrónuilm: MATAREITRUNIN! Nei, ótrúlegt en satt ruglaði Helga ekki saman sítrónusafa og klósetthreinsi við matargerðina þó líkt sé. Þegar fyrstu einkenni fóru að láta á sér kræla var Gógó í vinnunni og einmitt að þrífa klósett með þessum annars ágæta salernishreinsi. Um stund hélt hún að það yrði sitt síðasta verk, en viti menn, hún átti eftir að þrífa upp æluna eftir hana Helgu.


Ballerínukex: Minnir okkur á sunnudagaskólaferðalög. Eitt mesta tilhlökkunarefni vorsins og það sem mestu máli skipti var að vera með flottasta nestið. Þetta var eitt af fáum skiptum sem við fengum kex með kremi og því voru ákveðnar reglur um hvernig sporðrenna ætti góðgætinu. Taka í sundur, sleikja kremið, borða ljósa helminginn og síðast þann dökka.


Pamela í Dallas með Dúkkulísunum: Við erum ekki alveg það gamlar að við munum eftir Dallas þáttunum, en laginu góða var blastað aftur og aftur í ógleymanlegri útilegu okkar systra á Snæfellsnesinu um árið. Annars kunnum við engan deili á henni Pamelu blessaðir, en af laginu að dæma er það draumur hverrar stúlku að líkjast henni.


Jólasveinninn kemur í kvöld: Þetta lag hefur aldrei verið jólalag í okkar huga því það var spilað hvenær árs sem er. Það var ómissandi þáttur í skemmtilegum leik sem lékum í stofunni á Reykjum 1 hjá Söru og Aroni. Það byrjaði allt með því að allir sátu frekar niðurlútnir. En þegar bjölluómurinn tók að berast til eyrna glaðnaði yfir okkur og þegar fregnirnar um að jólasveinsins væri að vænta í kvöld ætlaði allt um koll að keyra. Við hoppuðum, stukkum og böðuðum út öllum öngum á milli þess sem við öskruðum „Hann kemur, hann er að koma!“ líkt og um frelsarann sjálfan væri að ræða. Eitt sinn varð hin óstjórnlega gleði svo mikil að Aron, ekki hærri í loftinu en hann var, tók á loft og skallaði ljósakrónuna af miklum krafti. Eins og þeir sem hann þekkja vita, þá hefur hann ekki beðið þess bætur enn þann dag í dag. Hamagangurinn stóð á meðan lagið varði, þá var tekin smá pása, pústað og teygt á sér og svo endurtekið.....aftur og aftur.


Svarta ferðataskan hennar Stínu systur: Ávalt þegar Stína kemur til lansins rifjast upp skemtileg saga sem tengist ferðatöskunni hennar. Eitt skipti þegar Stína var á leið út í heim kom hún heim með þessa (að okkur fannst ) risastóru ferðatösku. Eins og flest annað í fórum Stínu vakti taskan upp mikla forvitni hjá okkur. Þegar við höfðum grandskoðað töskuna datt Gróu það snjallræði í hug að vita hvort Helga kæmist fyrir ofan í töksunni. Jújú Helga komst ofaní, en var hægt að loka ? og þvílík töfrataska, með lás líka !!! En þegar Guðrún var orðin örmagna af því að draga Helgu um í töskunni, enda ekki flóarfriður fyrir bankinu sem þana barst ætlaði Guðrún af góðmennsku sinni einni að hleypa Helgu út. En obobbobb....talnalásinn hafði „alveg óvart“ ruglast og Guðrún hafði ekki hugmynd um hvert númerið var. Hún hefði nú ekki verið að stressa sig á því, enda Helga best geymd í töskunni, ef mamma hefði ekki skorist í leikinn og tekið eitt af sínum hyssteríu köstum. En sem betur fer var Stína ekki langt undan og gat frelsað helgu úr ánauðinni. Helga bar sig vel eftir vistina í töskunni, þangað til orðið innilokunarkennd kom fyrir í skammarræðunni yfir Guðrúnu. Og þegar Helga hafði fengið góða skilgreiningu á einkennum innilokunarkenndar þá var ekki um að villast, hún var illa haldin og grenjaði eftir því. Það sem okkur finnst þó skemmtilegast við þessa sögu er að ekki fyrir svo löngu komst Helga fyrir í ferðatösku sem hefur minkað til muna með árunum.

Nóg af minningavæmni í bili
Helga og Gógó ;)

3 comments:

  1. Gott blogg gott blogg :)
    knús sibba

    ReplyDelete
  2. Hehe gudrun thad sem ad thu veist ekki er ad vid mamma muldum penicilin töflur (sem thu varst nybuin ad spita utut ther) uti karamellusurmjolkina og gàfum thér og thu àst med bestu lyst.
    Stina

    ReplyDelete
  3. Guð minn góður stelpur ég hélt ég ætlaði að kafna úr hlátri við þessa lesningu!! Ég held án gríns að ég hafi endurupplifað þessa sælu minningu frá upphafi til enda við að lesa lýsinguna :)) takk fyrir æðisleg skrif :)

    sjáumst um helgina
    Sara

    ReplyDelete